Kvennalið ÍA er fallið úr næst efstu deild á Íslandsmótinu í knattspyrnu 2021.
ÍA endaði í 10. og neðsta sæti deildarinnar eftir æsispennandi lokakafla þar sem að fimm lið börðust um að halda sæti sínu í deildinni. Til marks um hversu jöfn deildin var þá hefði ÍA endað í 6. sæti ef liðið hefði skorað eitt mark til viðbótar í jafnteflisleiknum gegn Haukum í lokaumferðinni.
ÍA vann 4 leiki á tímabilinu, gerði 3 jafntefli og tapaði 11 leikjum. Grótta féll með ÍA en aðeins munaði einu stigi á 8. og 10. sætinu.
KR og Afturelding fara upp í PepsiMax deild kvenna, efstu deild, og Tindastóll og Fylkir féllu úr efstu deild.
ÍA er í þeirri stöðu að kvennalið félagsins mun hefja næsta Íslandsmótið í þriðju efstu deild. Samkvæmt heimildum skagafrettir.is hefur félagið aldrei áður leikið í þriðju efstu deild.
ÍA tók þátt í fyrsta sinn árið 1974 en á þeim tíma var leikið í einni deild á Íslandsmótinu í kvennaflokki. ÍA tók næst þátt á Íslandsmótinu í knattspyrnu kvenna árið 1979. ÍA náði öðru sætinu árið 1981 og liðið varð Íslandsmeistari í fyrsta sinn árið 1984 en alls á ÍA þrjá Íslandsmeistaratitla í efstu deild kvenna í knattspyrnu (1984, 1985 og 1987).