Kvennalið ÍA féll naumlega úr næst efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu

Kvennalið ÍA er fallið úr næst efstu deild á Íslandsmótinu í knattspyrnu 2021.

ÍA endaði í 10. og neðsta sæti deildarinnar eftir æsispennandi lokakafla þar sem að fimm lið börðust um að halda sæti sínu í deildinni. Til marks um hversu jöfn deildin var þá hefði ÍA endað í 6. sæti ef liðið hefði skorað eitt mark til viðbótar í jafnteflisleiknum gegn Haukum í lokaumferðinni.

ÍA vann 4 leiki á tímabilinu, gerði 3 jafntefli og tapaði 11 leikjum. Grótta féll með ÍA en aðeins munaði einu stigi á 8. og 10. sætinu.

KR og Afturelding fara upp í PepsiMax deild kvenna, efstu deild, og Tindastóll og Fylkir féllu úr efstu deild.

ÍA er í þeirri stöðu að kvennalið félagsins mun hefja næsta Íslandsmótið í þriðju efstu deild. Samkvæmt heimildum skagafrettir.is hefur félagið aldrei áður leikið í þriðju efstu deild.

ÍA tók þátt í fyrsta sinn árið 1974 en á þeim tíma var leikið í einni deild á Íslandsmótinu í kvennaflokki. ÍA tók næst þátt á Íslandsmótinu í knattspyrnu kvenna árið 1979. ÍA náði öðru sætinu árið 1981 og liðið varð Íslandsmeistari í fyrsta sinn árið 1984 en alls á ÍA þrjá Íslandsmeistaratitla í efstu deild kvenna í knattspyrnu (1984, 1985 og 1987).

„Niðurstaðan er mikil vonbrigði sem vinna þarf úr. Í okkar liði eru margir góðir og efnilegir leikmenn en einhverra hluta vegna tókst ekki að skapa nógu sterka liðsheild og því fór sem fór. Stjórn félagsins, leikmenn og allir áhugamenn verða hreinlega að setjast yfir málin og móta í snarhasti stefnuna til framtíðar. Tíminn er dýrmætur og góðir leikmenn eftirsóttir. Samkeppnin í kvennaknattspyrnunni er hörð og til marks um það þá hefði eitt mark getað ráðið því að ÍA væri í 6. sæti deildarinnar en ekki því 10. Vonandi tekst ÍA að halda öllum lykilmönnum og rísa hratt upp. Við höfum verk að vinna í kvennaboltanum,“ skrifar Sigurður Arnar Sigurðsson á fésbókarsíðu Knattspyrnufélags Akraness.