Hrefnan í Steinsvör vekur athygli á Akranesi – myndir og myndband

Í dag hafa margir lagt leið sína að Steinsvör á Akranesi til þess að virða fyrir sér hrefnu sem rak þar á land í morgun.

Hrefnan, sem er einnig nefnd hrafnreyður, hrafnhvalur og léttir, er sjávarspendýr af ætt reyðarhvala eins og hnúfubakur, langreyður, sandreyður og steypireyður.

Dýrið sem rak á land í Steinsvörina er fullvaxið og er líklega 8-10 metrar á lengd og á bilinu 4000-5000 lkg. að þyng.

Hrefna er næstminnsta tegund skíðishvala og sú minnsta sem heldur sig á norðurhveli.

Kvendýr og karldýr eru að meðaltali 6,9 og 7,4 m löng við kynþroska sem verður þegar dýrin ná 5-8 ára aldri. Kýrnar (kvendýrin) eru aðeins stærri en tarfarnir (karldýrin).

Tarfar við Ísland verða kynþroska 5 ára, og kvendýr einu ári eldri. Hámarkslengd hrefnu er áætluð frá 9,1 til 10,7 m hjá kvendýrum og frá 8,8 til 9,8 m hjá karldýrum. Bæði kynin vega venjulega 4-5 tonn við kynþroska og hámarksþyngd getur verið 14 tonn. Hrefnur lifa venjulega í 30-50 ár en geta orðið 60 ára. Elsta hrefna sem hefur verið aldursgreind við Ísland var 43 ára tarfur.