Af framþróun byggðar

Aðsend grein frá Einari Brandssyni.

Í grein sem Sævar Jónsson skrifaði undir heitinu „Bréf til bæjarfulltrúa og íbúa Akraness“ vísaði hann í greinar sem ég skrifaði sannarlega og fjallað er um þá fyrirætlun að breyta deiliskipulagi og aðalskipulagi til að færa byggð að Garðalundi. Ég sá í því landi sem færa átti undir byggð ákveðna möguleika i gerð glæsilegs útivistarsvæðis í framtíðinni þar sem Garðalundur og Klapparholt yrðu tengd saman. Slík útivistarsvæði hefði getað nýst af öllum íbúum Akraness. Ekki hlaut þessi barátta mín mikla stoð hjá íbúum Akranes og fannst sumum þessi barátta fyrir björgun á móum/ómerkilegu beitarlandi, eins og sumir nefndu svæðið, óþörf. Nokkur stór hópur íbúa í Skógarhverfi var á móti þessum breytingum. Ef rýnt er í greinarnar og málflutning undiritaðs í bæjarstjórn kemur í ljós að ég er frekar mótfallin því að skilja eftir mikið af gras bleðlum hér og þar í íbúðabyggð. Að sjálfsögðu er þó ávalt til fyrirmyndar að skilja eftir svæði fyrir leikvelli.

Ég tek undir með Sævari Jónssyni að vanda á til verka þegar kynntar eru breytingar á skipulagi og gefa góðan tíma til athugasemda ekki síst ef gera á breytingar í grónum hverfum. Best er að kynna málið áður en farið er af stað í formlegt ferli. 

Ég tók þátt í breytingu á deiliskipulagi svo unnt var að reisa fimleikahús á grænu svæði við Brekkubæjarskóla þrátt fyrir andmæli sem komu frá nágrönnum í þessu gróna hverfi.  Íbúum í nágrenninu var boðið til fundar áður en skipulags ferli fór af stað og málin voru rædd fram og til baka. Sumir voru á móti aðrir voru hvorki né og svo voru nokkrir sem fannst staðsetnigin eðlileg framþróun gróins hverfis.

Þegar hverfi byggjast upp er eðlilegt að íbúar geri ráð fyrir því að ekki verði miklar/stórar breytingar á skipulagi hverfisins ekki síst fyrstu árin. En við sem búum í bæjarfélagi eins og Akranes er megum og eigum alltaf að reikna með breytingum í tímans rás. Á Akranesi hafa verið gerðar mis vinsælar breytingar á grónum hverfum í gegnum tíðina og eru sumar í dag orðnar eðlilegar íbúum.

Einar Brandsson.

Hvað varðar ástæðuna fyrir hugsanlegum breytingum í Jörundarholti sem valda því að Sævar Jónsson grípur til pennans skal eftirfarandi áréttað. 

Það er skylda bæjaryfirvalda hverju sinni að sjá um að til séu íbúðarúrræði fyrir íbúa þar með talið fatlaða fólk.  Í lögum og reglugerðum kemur fram hvernig húsnæðið skal vera hvað varðar stærð, fjölda íbúa á sama stað og svo framvegis. Einnig að þessi íbúðarúrræði skuli eðli málsins samkvæmt vera í íbúðarbyggð og alls ekki skuli reisa þau of þétt saman. Staðan á Akranesi er sú að byggja þarf tvo til þrjá kjarna fyrir fatlað fólk á allra næstu árum. Þessir kjarnar verða ekki allir byggðir „nálægt“ þeirri þjónustu sem sumir væntanlegir íbúar þurfa að leita til og ekki geta þeir verið allir við hlið t.d. Fjöliðjunnar enda er hún ekki vinnustaður allra fatlaðra. 

Eitt af hlutverkum Skipulags- og umhverfisráðs er að finna lóðir sem hentað gætu undir slíka íbúðakjarna.  Núna liggur fyrir að ráðið hefur lagt til að lítill hluti af óskipulögðu svæði í Jörundarholti verði tekið undir næsta kjarna. Það mál er í ferli og í höndum Skipulags og umhverfisráðs og mun hugsanlega að endingu koma til bæjarstjórnar til afgreiðslu. 

Ég skora á íbúa á Akranesi að skoða öll slík mál af yfirvegun og koma á framfæri athugasemdum um slíkar framkvæmdir ef þeir telja tilefni til og jafnframt að íbúar láti sig varða hvernig við þróum bæinn okkar. 

Eins og kemur fram í grein Sævars Jónssonar hef ég mikinn áhuga á skipulagsmálum og mér er ekki sama hvernig við þróum bæinn okkar til framtíðar. Þeir sem hafa áhuga á mínum skoðunum geta kynnt sér greinar sem ég hef skrifað og hlustað á bæjarstjórnarfundi til að fræðast um þær skoðanir sem ég hef haft á þeim skipulagsmálum sem hafa verið í gangi undanfarinn ár. Einnig er öllum frjálst að hafa samband við mig.

Einar Brandsson, höfundur er bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks og varaformaður í Velferðar og manréttindaráði.

http://localhost:8888/skagafrettir/2021/09/06/bref-til-baejarfulltrua-og-ibua-akraness/