Karlalið ÍA hefur á undanförnum vikum bætt stöðu sína í neðri hluta PepsiMax deildarinnar í knattspyrnu með góðum úrslitum. Í gær steig ÍA stórt skref í því að halda sæti sínu í deild þeirra bestu á Íslandi með 5-0 sigri gegn Fylki.
Fyrir leikinn var ÍA í neðsta sæti með 15 stig en með sigrinum lyfti ÍA sér upp í 10. sætið. Í kvöld mætir HK liði Stjörnunnar en HK er í næst neðsta sæti og með sigri gæti HK komist upp fyrir ÍA.
ÍA mætir liði Keflavíkur á útivelli í lokaumferðinni um næstu helgi þar sem að úrslitin ráðast endanlega á Íslandsmótinu í knattspyrnu karla 2021.
Víkingar úr Reykjavík, sem Skagamaðurinn Arnar Gunnlaugsson þjálfar, er í efsta sæti deildarinnar með 45 stig og þar á eftir kemur Breiðablik með 44 stig.