Eins og áður hefur komið fram á skagafrettir.is tryggði karlalið ÍA sér áframhaldandi veru í Pepsi Max deildinni með ævintýralegum 3-2 sigri gegn Keflavík í lokaumferðinni,
ÍA gat aðeins haldið sæti sínu í efstu deild með því að vinna Keflavík og staðan var ansi dökk þegar ÍA var 2-0 undir þegar um hálftími var eftir af leiknum.
Lokakafli ÍA liðsins var ævintýri líkastur eins lesa má um hér.
Hér má sjá hvernig leikmenn og stuðningsmenn ÍA fögnuðu sigrinum og niðurstöðunni. (Myndband/Axel Fannar)
Skagamenn fengu vítaspyrnu í fyrri hálfleik en Steinar Þorsteinsson náði ekki að koma boltanum í markið. Ástbjörn Þórðarson, sem lék um tíma með ÍA sem lánsmaður úr KR, kom Keflavík yfir með stórkostlegu marki undir lok fyrri hálfleiks.
Staða ÍA varð enn verri þegar Óttar Bjarni Guðmundsson fyrirliði ÍA fékk boltann í sig og skoraði sjálfsmark á 64. mínútu.
Leikmenn ÍA gáfust ekki upp og á 68. mínútu skoraði varnarmaðurinn Alexander Davey mark fyrir ÍA sem kveikti svo sannarlega neista í liðinu. Guðmundur Tyrfingsson, sem kom inná sem varamaður á 57. mínútu, jafnaði metinn fyrir ÍA á 72. mínútu. Sindri Snær bætti svo við þriðja markinu fjórum mínútum síðar og staðan 3-2 fyrir ÍA.
Það urðu lokatölur leiksins og sæti ÍA í efstu deild tryggt.