Skagamennirnir Arnar Gunnlaugsson og Pétur Pétursson stýrðu liðum sínum til sigurs á Íslandsmótinu í knattspyrnu, Pepsi Max deildinni, 2021. Arnar og Pétur léku með ÍA upp alla yngri flokka félagsins áður og fögnuðu báðir titlum með ÍA áður en þeir héldu ungir í atvinnumennsku.
Arnar og Pétur voru miklir markaskorarar á árum áður og eiga það sameiginlegt að hafa stigið fyrstu skrefin á atvinnumannaferlinum hjá hollenska liðinu Feyenoord.
Arnar, sem er þjálfari Víkinga úr Reykjavík, fagnaði Íslandsmeistaratitlinum í fyrsta sinn sem þjálfari en hann varð Íslandsmeistari í tvígang sem leikmaður ÍA (1992 og 1995) og einnig með FH árið 2008. Víkingur hefur fimm sinnum áður sigrað á Íslandsmótinu í efstu deild, 1920, 1924, 1981, 1982 og 1991.
Þetta er annar titill Víkings undir stjórn Arnars en liðið varð bikarmeistari árið 2019.
Pétur Pétursson varð Íslandsmeistari með ÍA árið 1977 og hann varð einnig bikarmeistari með ÍA 1978 og 1986. Þetta er í annað sinn sem Pétur stýrir liði Vals til sigurs á Íslandsmótinu í knattspyrnu. Hann tók við þjálfun liðsins árið 2017 og árið 2019 varð liðið Íslandsmeistari undir hans stjórn. Valur hefur sigrað alls ellefu sinnum á Íslandsmótinu í knattspyrnu kvenna.