Menningar – og safnanefnd Akraness sendi nýverið frá sér greinargerð þar sem að fram kemur að ráðið hefur áhyggjur af því hversu takmarkað fé fer til árlegs viðburðahalds á Akranesi. Þetta kemur fram í nýjustu fundargerð nefndarinnar.
Á árinu 2021 er gert ráð fyrir um 19 milljóna kr. fjárveitingu til viðburðahalds en um 2,5 milljónir af því fé fara í verktakagreiðslur fyrir skipulagningu viðburða á borð við sjómannadag, 17. júní, írskra daga og Vökudaga. Á undanförnum þremur árum hafa verktakar verið nýttir til þess að sjá um skipulagningu á ýmsum viðburðum á vegum Akraneskaupstaðar.
Ástæður þess er að bæði fráfarandi forstöðumaður menningar- og safnamála sem og skrifstofustjóri hafa ekki séð sig fært um að sinna þessu verkefni í sínu starfi sökum verkefnaálags þar sem eðli viðburðahalds krefst mikils
undirbúnings og skipulagningu og kallar á 100% einbeitingu eins starfsmanns. Bæði störfin hafa ekki boðið upp á slíkt síðustu ár. Greiðslur til verktakans hafa að öllu jöfnu verið teknar af fjárveitingu til viðburðarhalds, enda ekki annað í stöðunni.
Í greinargerðinni kemur m.a. fram að nefndin leggi það til að ráðinn verði viðburðastjóri hjá Akraneskaupstað sem færi einnigmeð aukið hlutverk í markaðs – og ferðamálum hjá Akraneskaupstað.
Nefndin leggur einnig fram þá tillögu að bæjarráð bæti við 3 milljónum kr. í viðburðahald sem yrði þá nýtt í aðkeypta þjónustu vegna viðburðahalds.