Snemma í morgun kom út nýtt lag eftir Skagamanninn Jónas Björgvinsson sem fagnar einnig hálfrar aldar afmæli sínu í dag. Lagið heitir Minning hljómar og er fyrsta lagið á nýrri plötu sem heitir Á Norðurhveli og kemur út þann 4. nóvember
Þetta er í annað sinn sem Jónas gefur út sólóplötu en sú fyrsta kom út fyrir 23 árum.
Það er óhætt að segja að platan hafi verið lengi á teikniborðinu en Jónas hefur starfað lengi sjálfur við hljóðupptökur.
„Við höfum unnið allt þetta ár við upptökur og það eru margir sem koma að þessu verkefni með mér. Þar á meðal Skagamenn á borð við Orra Harðarson sem er þessa stundina að leggja síðustu hönd á hljóðblöndunina á Akranesi. Tónlistarmaðurinn Ómar Guðjónsson sá um stjórn upptöku á plötunni sem inniheldur 9 lög,“ segir Jónas sem syngur lögin sín sjálfur og leikur einnig á munnhörpu og kassagítar.
„Ég fékk frábært listafólk með mér í þetta verkefni. Tómas Jónsson leikur á píanó og orgel, Birgir Baldursson, sem bjó lengi á Akranesi, leikur á trommur auk þess sem Ómar Guðjónsson leikur á gítara, bassa, túbu, slagverk og fleira ásamt bakröddum. Hans Júlíus Þórðarson og Tindra Gná Birgisdóttir syngja bakraddir á plötunni. Ómar sá um útsetningu laganna og upptökustjórn og Skagamaðurinn Orri Harðarson sá um hljóðblöndun. Platan er að mestu tekin upp í hljóðveri Ómars Guðjónssonar, Studio Hofsstaðir í Garðabæ, en einnig hljóðverinu mínu, Hljóðver.is á Langholtsvegi. Ólöf Erla Einarsdóttir hjá Svartdesign sá um ljósmyndir og hönnun umslags,“ segir Jónas.
Forsíða umslagsins er áhugavert en þar er gömul ljósmynd frá Akranesi í aðalhlutverki.
„Þetta er mynd sem er í miklu uppáhaldi hjá okkur í fjölskyldunni. Myndina er af afa mínum Júlíusi Þórðarsyni, á forlátu Harley Davidsson mótorhjóli á Langasandi með Akrafjallið í baksýn. Ég á að sjálfsögðu margar góðar minningar frá Akranesi þar sem ég er fæddur og uppalinn. Afi Júlli hafði mikil áhrif á mig en hann kenndi mér á munnhörpu og hafði þar af leiðandi mikil áhrif á þann áhuga sem ég fékk á tónlist.“
Ættartré Jónasar:
Foreldrar: Björgvin Hagalínsson, Guðrún Edda Júlíusdóttir.
Systkini: Ásdís Emelía, Lára Hagalín og Júlíus.
Eins og áður segir kemur platan Á Norðurhveli út þann 4. nóvember en fyrsta lagið kom út í dag á öllum helstu tónlistarveitum. Platan verður einnig gefin út á vínyl og geisladisk. Allir textar og öll lög á plötunni eru eftir Jónas
„Fyrsta lagið, Minning hljómar, er tileinkað móður minni sem hafði mikil áhrif á tónlistaráhuga minn. Ég hef starfað við tónlist með hléum allt frá árinu 1992. Ég gaf út plötuna Haust árið 1998 undir hljómsveitarnafninu Ummhmm en sú plata vakti talsverða athygli og fékk góða dóma. Ég hef rekið fyrirtækið.hljodver.is frá árinu 2007 og komið að gerð fjölda hljómplatna ásamt því að syngja um árabil með Fjallabræðrum,“ segir Jónas Björgvinsson tónlistarmaður.