„Langisandur fyrir alla“ sigurvegari í hugmyndasamkeppni Akraneskaupstaðar

Viðamiklar breytingar verða á ásýnd Langasandssvæðisins á Akranesi ef tillögur fráLandmótun sf. ásamt Sei Stúdíó ná fram að ganga á næstu misserum. Þessir aðilar stóðu uppi sem sigurvegari í hugmyndasamkeppni sem Akraneskaupstaður stóð fyrir. Þrjú fyrirtæki fengu tækifæri að senda inn hugmyndir eftir forval sem fór fram í febrúar á þessu ári og samkeppnin hófst í mars. Þetta kemur fram á vef Akraneskaupstaðar.

Dómnefnd var einróma sammála um að tillagan „Langisandur fyrir alla“ væri sú besta. Tillagan er unnin af teymi Landmótunar og Sei Stúdíó sem samanstóð af Áslaugu Traustadóttur landslagsarkitekt, Jóhanni Sindra Péturssyni landslagsarkitekt, Þorsteini Má Ragnarssyni umhverfisskipulagsfræðingi, Shruthi Basappa arkitekt, Einari Hlé Einarssyni MAA og Guðjóni L. Sigurðssyni ljósvistarhönnuði. Framangreindir aðilar búa yfir víðtækri reynslu og hafa þau m.a. komið að verkefnum í Nauthólsvík, á Geysi og Bolafjalli svo fátt eitt sé nefnt.

Í dómnefnd voru fyrir hönd Akraneskaupstaðar, Ragnar B. Sæmundsson formaður skipulags- og umhverfisráðs, Ólafur Adolfsson aðalmaður í skipulags- og umhverfisráði og Halla Marta Árnadóttir skipulagsfulltrúi. Fulltrúar FÍLA voru Hermann Georg Gunnlaugsson landslagsarkitekt FÍLA og skipulagsfræðingur, SFFÍ og Hildur Gunnlaugsdóttur arkitekt, AÍ. Verkefnastjóri samkeppninnar og ritari dómnefndar var Sædís Alexía Sigurmundsdóttir skrifstofustjóri og trúnaðarmaður dómnefndar var Ólafur Melsted landslagsarkitekt FÍLA.

Í umsögn dómnefndar um tillöguna kom eftirfarandi fram:

„Tillagan Langisandur fyrir alla er lágstemmd en full næmni sem dregur fram fegurð og notagildi svæðisins. Þá ber að nefna hvernig aðgengi að sandinum og sjónum er aukið á einstakan hátt með aðgengi fyrir alla í fyrirrúmi. Rampar liggja sitt hvort megin niður með grjótgarði og mætast á svæði með útisturtum og þaðan áfram með steyptri bryggju út í sjó. Annars vegar frá Jaðarsbraut úr vestri sem tengir þannig svæðið við Sementsreitinn og hinsvegar frá Akranesvelli og Aggatorgi úr austri. Þannig geta allir öðlast dýrmætt aðgengi að sjónum. Á milli Akraneshallarinnar og fótboltavallanna er síðan göngusvæði sem leiðir upp í hverfið fyrir ofan og þaðan með aflíðandi rampi niður að sjó, út að Merkjaklöpp, en slítur þó ekki gönguleið í gegnum svæðið þar sem hún fer yfir á göngubrú. Bátaleiga við rampinn er skemmtilega leyst undir torgsvæði í góðum tengslum við rampinn og sjóinn.Greining á náttúrulegum línum og hæðarlegu í Merkjaklöpp er yfirfærð á sannfærandi hátt í útfærslu stígsins og göngubrú. Torgsvæði milli íþróttahallar og Akranesvallar er fjölnota og auðvelt að sjá fyrir sér mikið líf skapast á því svæði við ýmis tilefni. Fyrrgreint svæði nær að svæði Guðlaugar með fallegri útfærslu á útsýnis- og sólpalli. Þá er stúkan skemmtilega útfærð með hugmyndum að fjölbreyttri starfsemi og fellur hönnun hennar vel umhverfi svæðisins. Ljósvistarskipulag tillögunnar er metnaðarfullt og settar eru fram tillögur um upplýsta áningarstaði meðfram gönguleið. Tillagan sker sig frá öðrum tillögum með þessari áherslu.“

Virkt íbúasamráð strax í byrjun


Strax í upphafi var leitast við að tryggja virkt samráð með íbúum á Akranesi.

„Svæðið Langisandur er svæði okkar allra og ekki hægt að framkvæma þessa samkeppni nema í fullu samráði við íbúa. Þessi aðferðafræði okkar í samkeppninni hefur vakið athygli annara sveitarfélaga til eftirbreytni við að auka íbúalýðræði og samráð, þetta er okkar hjartans mál“ sagði Sævar Freyr bæjarstjóri þegar greint var frá niðurstöðunni.

Skipulagsvinna framundan


Næstu skref er að fullmóta deiliskipulag fyrir svæðið í samvinnu með vinningsteymið. Í slíku ferli verður áfram íbúasamráð í gegnum hefðbundið ferli í skipulagsmálum. „Langisandur er svæði sem er í eigu íbúa á Akranesi og er það einlægur vilji Akraneskaupstaðar að halda áfram uppbyggingu á því svæði í sátt og samlyndi íbúa og náttúru. Hugmyndir tveggja teyma um þéttingu byggðar voru helst til of miklar en dómnefnd var sammála um að slík uppbygging væri álitlegur valkostur og þyrfti að útfæra hana betur með framangreind atriði í huga“ sagði Ragnar B. Sæmundsson formaður dómnefndar.