Á Sigurslóð – skemmtilegir sögumolar um bikarúrslitaleiki ÍA – 1. hluti

Feðgarnir Jón Gunnlaugsson og Stefán Jónsson hafa á undanförnum dögum birt áhugaverða sögumola um úrslitaleiki ÍA í bikarkeppni karla í knattspyrnu á fésbókarsíðunni Á Sigurslóð. ÍA og Víkingar úr Reykjavík eigast við í úrslitum laugardaginn 16. október á Laugardalsvelli og er þetta í 20. sinn sem ÍA leikur til úrslita í karlaflokki í bikarkeppni KSÍ.


ÍA hefur leikið 19 úrslitaleiki í Bikarkeppni KSÍ frá upphafi keppninnar árið 1960. 9 leikir hafa unnist og níu leikir tapast. Einum leik lauk með jafntefli árið 1969 en ÍA tapaði síðan í endurteknum leik. Auk þess hefur liðið 10 sinnum komist í undanúrslit keppninnar í leikjum sem töpuðust.

Þannig hefur liðið verið í 45% tilfella í undanúrslitum keppninnar frá 1960 til dagsins í dag.

Við ætlum að rifja upp úrslitaleikina og tökum fyrst þá leiki sem fóru fram á Melavellinum forðum daga. Einnig tökum við með ýmis skemmtileg atvik sem fylgdu þessari keppni en b.lið bestu félaganna náði oft góðum árangri. Síðustu umferðir keppninnar voru á þessum árum leiknar eftir að Íslandsmótinu lauk, í flestum tilfellum fram í október og í einstaka tilfellum aðeins lengur. Úrslitaleikir ÍA á Melavellinum urðu sex talsins og hér koma minningar frá þessum leikjum.

1961: ÍA – KR



Spennandi úrslit um bikarinn.


Staðan var 2-0 fyrir KR eftir 4 mín en jafntefli blasti við í leikslok. ÍA lék gegn KR 22.október 1961 á Melavellinum. KR vann í spennndi leik 4-3 og gátu að nokkru þakkað því heppni. Þeir skoruðu tvö mörk á fyrstu mínútum leiksins, bæði klaufaleg, sem skrifast á reikning Akranesvarnarinnar. „Leikurinn er búinn“ sögðu sumir, en svo sannarlega var hann ekki búinn, því Akurnesingar gáfust ekki upp og börðust hetjulegri baráttu allt til enda en það dugði ekki til. Mörk ÍA skoruðu Þórður Jónsson (2) og Skúli Hákonarson.

1963: ÍA – KR


Eftir jafnan fyrri hálfleik náði KR undirtökunum

ÍA lék gegn KR 6.október 1963 á Melavellinum. KR vann leikinn 4 – 1 og höfðu yfirburði nánast allan leikinn. Þetta var fjórði sigur þeirra í keppnini í röð. Alls voru 5600 áhorfendur á úrslitaleiknum. Ingvar Elísson skoraði mark ÍA. Eitt af ævintýrum þessara ára í keppninni var þegar b.liðin náðu góðum árangri gegn toppliðunum. Íslandsmeistaralið KR lenti þarna í kröppum dansi gegn b.liði ÍA en vann nauman 3-2 sigur.

1964: ÍA – KR

Ekkert stöðvar KR í bikarnum.

ÍA lék gegn KR 24.október 1964 á Melavellinum. KR vann 4-0. Þetta var fimmti bikarsigur KR og höfðu þeir nokkra yfirburði í leiknum. ÍA tókst sjaldan að ógna KR markinu og því fór sem fór. B.liðin héldu áfram að koma á óvart og KR gerði sér lítið fyrir og sló út nýkrýnda Íslands-meistara Keflavíkur. En það var fleira merkilegt þetta ár. B.lið ÍA lék gegn Eyjamönnum í leik sem endandi 9-8. Ótrúlegar tölur, en haft var á orði að jafn mörg glæsileg mörk hefðu ekki sést í einum og sama leiknum.

1965: ÍA – Valur

Leikið á glerhálum velli þar sem Valur sýndi yfirburði.

ÍA lék gegn Val 31. október 1965 á Melavellinum. Valur vann verðskuldaðan 5-3 sigur eftir sögulegan leik, því er liðin mættu til leiks var völlurinn hrímfrosin, ef undan eru taldar merkingalínur vallarins. Skúli Hákonarson, Björn Lárusson og Guðjón Guðmundsson skoruðu mörk ÍA. Ekki var almenn ánægja með framkvæmd leiksins og í einu dagblaðanna kom fram eftirfarandi. „ Úrslit Bikarkeppninnar útkljá ekki aðeins úrslit milli tveggja félaga, sem áður hafa ekki tapað leik. Þau skera úr um hvort félaganna fer í Evrópukeppni að sumri. Að keppt sé við gerólíkar aðstæður þvi sem félög æfa við mánuðum saman er afleitt. Þar ofan á bætist að kappleiksdagurinn er einn af fáum dögum haustsins er héla hylur Melavöllinn og ekkert virðist hafa verið gert til að lagfæra aðstæðurnar“.

1969: ÍA – ÍBA

Bikarinn til Akureyrar

ÍA lék gegn ÍBA Akureyri 30.nóvember 1969 á Melavellinum. Leið ÍA í átt að úrsltaleiknum var ekki auðveld en liðið sló úr Reykjavíkurstórveldin Fram, Val og KR nokkuð örugglega. Akureyringar höfðu m.a. slegið út b.lið ÍA í 8.liða úrslitum með naumum sigri. Aldrei fyrr hefur það átt sér stað að nauðsynlegt hafi reynst að gera hlé á úrslitaleik í knattspyrnu vegna veðurs. Í nær 80 minútur höfðu leikmenn barist móti SV roki, en þá dimmdi skyndilega og yfir gekk með miklu hagléli. Dómarinn sá sitt óvænna, skipaði leikmönnum í húsaskjól og þar stóðu þeir af sér hrinuna. En síðan var leiknum framhaldið og lauk með jafntefli 1-1. Guðjón Guðmundsson skoraði mark ÍA. Í síðari leiknum sem fór fram 6.desember vann ÍBA 3-2 og voru vel að sigrinum komnir. Matthías Hallgrímsson og Teitur Þórðrson skoruðu mörk ÍA. Akureyringar voru vel að sigrinum komnir, enda lengst af með undirtökin. En þetta var ekki svo einfalt því þrátt fyrir betra spil fundu þeir ekki leiðina í markið. Eldsnöggar sóknaraðgerðir ÍA færðu liðinu tveggja marka forystu fljótlega í síðari hálfleik. Útlitið virtist dökkt fyrir Akureyringa sem náðu þó að jafna leikin á lokakaflanum. Í framlenginu skoruðu þeir svo sigurmarkið. Dimmt var orðið og vítaspyrmukeppni hefði verið illframkvæmaleg. Það hefði einhvern tíma þótt saga til næsta bæjar að hér væri knattspyrnukeppni fram í desember.

Fyrsti áratugurinn.

Þannig lauk fyrsta áratugnum í Bikarkeppni KSÍ og þó ÍA liðið hafi komið mikið við sögu nánast á hverju ári hafði það ekki árangur sem erfiði. Í þessum keppnum var KR meistari í 7 skipti og Valur, Vestmannaeyjar og Akureyri með einn titil hvor. Akranes lék á þessum tíma sex úrslitaleiki og var þrívegis í undanúrslitum í leikjum sem töpuðust. Aðeins árið 1962 lauk ÍA keppni í 8 liða úrslitum eftir stórtap gegn Akureyri 1-8.