Á Sigurslóð – skemmtilegir sögumolar um bikarúrslitaleiki ÍA – 3. hluti

Feðgarnir Jón Gunnlaugsson og Stefán Jónsson hafa á undanförnum dögum birt áhugaverða sögumola um úrslitaleiki ÍA í bikarkeppni karla í knattspyrnu á fésbókarsíðunni Á Sigurslóð. ÍA og Víkingar úr Reykjavík eigast við í úrslitum laugardaginn 16. október á Laugardalsvelli og er þetta í 20. sinn sem ÍA leikur til úrslita í karlaflokki í bikarkeppni KSÍ.

Hér er 3. hluti af þessari samantekt þeirra feðga.

Aldrei spurning hvort liðið var betra í úrslitum bikarsins


Sunnudagurinn 27. ágúst 1978 var dagur Skagamanna í íslenzkri knattspyrnu. Þeim tókst þá í 9. tilraun að bera sigur úr býtum í bikarkeppni KSÍ með sigri á Val 1-0. Sigurinn var í hæsta máta verðskuldaður og hefði getað orðið stærri eftir gangi leiksins. Hetja Skagamanna í þessum leik var Pétur Pétursson, en þessi mikli markaskorari gerði út um leikinn með fallegu skoti á markamínútu fyrri hálfleiksins. Pétur drap knöttinn niður á brjóstinu eftir fyrirgjöf og skaut síðan hnitmiðuðu skoti viðstöðulaust í markhornið nær á milli varnarmanna Vals. Pétur stóð að þessu marki sínu eins og sá sem valdið hefur og snilldina og 31 mark hans á keppnistímabilinu var staðreynd. Sennilega dýrmætasta markið á ferli hans.


Pétur Pétursson rifjaði upp með okkur þennan merkilega dag:

„Kirby var náttlega frábær sálfræðingur líka og hann svona plantaði allskonar hlutum inn í mig, sem maður áttaði sig kannski ekki á fyrr en seinna. Hann nuddaði mig fyrir leikinn og tók svo hægri löppina á mér og sagði: “heyrðu þú skorar með hægri í dag”. Magnað að ég skyldi síðan hafa skorað svo með hægri“. Pétur bætti við: „það kom eiginlega ekki til greina frá neinum af þessum karakterum í Skagaliðinu að við myndum fara uppá Skaga án þess að hafa bikarinn með okkur. Það lá alveg ljóst fyrir. Svo er búið að ýta á okkur endalaust að við getum ekki unnið bikarinn af því að við vorum búnir að tapa 8 sinnum og þetta var allt einhvernveginn blandað saman í einn kokteil sem sagði okkur það að við erum að fara með titillinn uppá skaga í kvöld.“


Kampakátur þjálfari


Í þessari níundu tilraun tókst Skagamönnum loks að sigra í bikarkeppninni og mikill var fögnuður leikmanna og stuðningsmanna liðsins eftir leik og ekki síður eftir að liðið kom heim til Akranes. George Kirby þjálfari liðsins var kampakátur þegar blaðamenn ræddu við hann að leik loknum.

“Nú erum við loksins búnir að losa okkur við þennan bikardraug og ég er ánægður með það, sagði hann og bætti við að hann hafi örugglega gert sig óvinsælan í hópnum með því að gera tvær veigamiklar breytingar á liðsuppstillingu. En leikmenn tóku þessum breytingum og við sigruðum. Ég varð að taka erfiðar ákvarðanir og finna liðið, sem gæti unnið í keppnina. Þetta tókst okkur og ég verð að viðurkenna að við misstum af sigri í 1. deildinni m.a. vegna þess að okkar stóra markmið í ár var sigur í bikarkeppninni. Við einblíndum á bikarkeppnina, en auðvitað ætluðum við okkur að fara eins langt í 1. deild og mögulegt væri, en hversu mörg lið hafa ekki ætlað sér að vinna allt, en síðan ekki fengið neitt? Árið 1974 töpuðum við bikarkeppninni, en það átti þó ekki að vera mögulegt. Núna hafði ég það á tilfinningunni að við myndum sigra, en ég vissi að Valur væri gott lið og því dygði ekki neinn meðalleikur.”

Sigurglaðir Skagamenn


Skagamenn voru eins og áður segir kátir og sigurglaðir að leiknum loknum og er gjaldkeri þeirra kom inn í búningsklefann með ávísun upp á 2.3 milljónir var honum vel fagnað. Bikarinn var réttur að honum, en ekki áttaði gjaldkerinn sig strax á því hvað hann átti að gera við bikarinn góða. í stað þess að dreypa á kampavíninu, sem í bikarnum var, setti hann ávísunina upp á 2.3 milljónir ofan í bikarinn. Voru þá rekin upp óp mikil og aumingja gjaldkerinn mátti gjöra svo vel að fiska kampavínslegna ávísunina upp úr bikarnum og þar sem áður höfðu staðið fagrir stafir upp á háar tölur voru nú aðeins bláar klessur. Friðjón Friðjónsson, gjaldkeri KSÍ, bjargaði málum þó snarlega fyrir Skagamenn og skrifaði nýja ávísun, en eyðilagði þá votu. Þannig lauk 17 ára martröð Skagamanna í Laugardalnum í bikarkeppninni. 6746 áhorfendur voru á leiknum

http://localhost:8888/skagafrettir/2021/10/13/a-sigurslod-skemmtilegir-sogumolar-um-bikarurslitaleiki-ia-1-hluti/
http://localhost:8888/skagafrettir/2021/10/13/a-sigurslod-skemmtilegir-sogumolar-um-bikarurslitaleiki-ia-2-hluti/