Bæjarstjórn Akraness hefur samþykkt umsókn um breytingar á húsinu við Suðurgötu 50A.
Húsið er vel þekkt á Akranesi.
Brauða – og Kökugerðin eða Kallabakarí var með starfsemi í þessu húsnæði um margra áratuga skeið. Húsið, sem er á einni hæð, var byggt árið 1966 og er rétt um 150 fermetrar að flatarmáli. Frá árinu 2018 hefur Leirbakaríið verið með list – og menningartengda starfsemi í þessu húsnæði.
Húsinu verður breytt töluvert eins og sjá má á myndunum hér fyrir neðan. Byggð verður ein hæð til viðbótar ofaná núverandi byggingu og tvær íbúðir verða í húsinu.
Einnig verður möguleiki að nýta 1. hæð við Suðurgötu undir verslun og þjónustu. Byggð verði hæð úr timbri yfir hluta af núverandi húsi eins og meðfylgjandi myndir sýna.
Þetta er í annað sinn sem óskað er eftir leyfi fyrir breytingum á þessu húsi en fyrri umsóknin fór í gegnum stjórnsýsluna á Akranesi í apríl á þessu ári eins og sjá má í þessari frétt.