Á Sigurslóð – skemmtilegir sögumolar um bikarúrslitaleiki ÍA – 6. hluti

Feðgarnir Jón Gunnlaugsson og Stefán Jónsson hafa á undanförnum dögum birt áhugaverða sögumola um úrslitaleiki ÍA í bikarkeppni karla í knattspyrnu á fésbókarsíðunni Á Sigurslóð. ÍA og Víkingar úr Reykjavík eigast við í úrslitum laugardaginn 16. október á Laugardalsvelli og er þetta í 20. sinn sem ÍA leikur til úrslita í karlaflokki í bikarkeppni KSÍ.

Hér er 6. og næst síðasti hluti af þessari samantekt þeirra feðga.

Í upprifjun okkar um bikarúrslitaleiki ÍA fyrr og síðar eigum við eftir að fara yfir þrjá leiki og tveir þeirra er nú teknir fyrir. Árin í kringum aldamótin voru góð ár.

Liðið komst í bikarúrslit bæði 1999 og 2000 og varð svo Íslandsmeistari 2001.

Gömlu erkifjendurnir mættust 1999 í hörkuleik sem KR sigraði. Ári síðar var komið að áttunda sigrinum og óhætt að segja að á nýrri öld hafi ÍA liðið stimplað sig rækilega inn og fylgdi því eftir á næstu árum.

1999: ÍA – KR

„Bjarki slökkti í okkur með einu góðu skoti“

ÍA lék gegn KR 26.september 1999 á Laugardalsvellinum.

Eftir sjö sigurleiki í bikarnum var komið að tapi gegn KR 3-1.

Stefán Þórðarson skoraði mark ÍA eftir að KR hafði komist í 2-0. Bjarki Gunnlaugsson innsiglaði síðan sigur KR. en hann og Sigursteinn Gíslason voru nú í meistaraliði KR eftir veru sína í gula búningnum.

„Það er sorglegt að vera betri aðilinn en tapa samt. Við vorum betri að mínu mati, áttum fullt af færum en munurinn á liðunum í dag fólst í nýtingu á marktækifærum. KR-ingar nýttu sín færi betur en við og því fór sem fór,“ sagði Ólafur Þórðarson þjálfari ÍA, en hann tók við Skagaliðinu fyrir viku síðan, eftir að Loga Ólafssyni var sagt upp störfum. Áhorfendur á leiknum voru 7.401.

• 2000 Á Akranesi er ár án titils mjög langt ár

ÍA lék gegn ÍBV 24.september 2000 á Laugardalsvellinum.

Á Akranesi er ár án titils mjög langt ár sagði í fyrirsögn í dagblaði eftir að ÍA hafði sigrað 2-1.

Eftir sigurárin 1992 til 1996 hafa Skagamenn ekki fagnað stórum titli þar til þessi bikarsigur var í höfn. Fögnuður þeirra var að vonum innilegur og fáir létu gleði sína jafn innilega í ljós þegar flautað var til leiksloka og þjálfarinn Ólafur Þórðarson.

„Skagamenn hljóta almennt að vera mjög sáttir enda langt síðan titill kom á Skagann og tími kominn á þennan sigur. Við vitum það sjálfir og búum við þessa pressu. Auðvitað reyna menn alltaf að gera sitt besta, en hjá öllum félögum koma lægðir og það þarf að viðurkenna. Sá toppur sem við náðum upp úr 1990 var óvenju langur, við urðum meistarar fimm ár í röð og það halda fá lið út slíkt við þær aðstæður sem við búum við sem áhugamenn“ sagði Ólafur Þórðarson þjálfari að leik loknum.

Baldur Aðalsteinsson og Kári Steinn Reynirsson skoruðu mörk ÍA. Áhorfendur á leiknum voru 4.632.