Í byrjun október var gripið til aðgerða í Brekkubæjarskóla á Akranesi sem miða að því að nemendur og starfsfólk nýti ekki íverustaði þar sem talið er að loftgæði séu ófullnægjandi.
Verkís gerði úttekt á húsnæði Brekkubæjarskóla vegna heilsufarseinkenna hjá nokkrum nemendum og starfsmönnum skólans.
Í tilkynningu á vef Akraneskaupstaðar kemur fram að ákveðnum skólastofum og rýmum hefur hreinlega verið lokað og viðgerðir m.a. þegar hafnar á salernum í álmu 4 í Brekkubæjarskóla.
Fyrr í mánuðinum fór fram ítarlegri skoðun á rýmum skólans, sýni tekin þar sem ástæða þótti til og nú liggja niðurstöður heildarúttektarinnar fyrir.
Meðal þess sem þarf að lagfæra víða um skólann eru salerni, gluggar og suður í gólfdúkum en á öðrum stöðum er um sértækari viðgerðir að ræða.
Bæjaryfirvöld munu á næstu dögum og vikum fjalla um og taka ákvarðanir um þær framkvæmdir sem ljóst er að ráðast þarf í á húsnæðinu til að skapa fullnægjandi aðstæður til kennslu.