Skoski varnarmaðurinn Alex Davey gerir nýjan samning við ÍA

Skoski varnarmaðurinn Alex Davey lét mikið að sér kveða með Knattspyrnufélagi ÍA á sínu fyrsta tímabili sem leikmaður ÍA.

Davey var einn af lykilmönnum ÍA í sumar og átti hann stóran þátt í því að liðið hélt sæti sínu í deild þeirra bestu og komst í úrslitaleik bikarkeppnin KSÍ.

Davey, sem er 26 ára gamall, hefur skrifað undir nýjan samning við ÍA og gildir samningurinn út keppnistímabilið 2023. Davey tók þátt í 19 leikjum í PepsiMax deildinni og skoraði hann 2 mörk.

Hann lék alla fimm bikarleiki ÍA á tímabilinu. Davey á áhugaverðan feril að baki. Hann var í unglingaliðum Chelsea á Englandi og var hann samningsbundinn félaginu þar til hann var 22 ára. Hann lék með Tampa Bay Rowdies í Bandaríkjunum – í næst efstu deild. Einnig hefur Davey leikið með ýmsum liðum sem lánsmaður og má þar nefna Scunthorpe, Peterborough og Crawley. Árið 2016 var hann á mála hjá Stabæk í norsku úrvalsdeildinni.

Alex Davey. Mynd/skagafrettir.is