Hvers vegna er ÍA búningurinn gulur?



Guli liturinn hefur verið einkennismerki ÍA í langan tíma en Íþróttabandalag Akraness var stofnað árið 1946.

En hvers vegna var guli liturinn fyrir valinu?, og kemur Dortmund í Þýskalandi við sögu í valinu á litnum?

Skagafréttir leituðu að sjálfsögðu í sagnabrunninn Jón Gunnlaugsson til þess að fá úr þessu skorið. Jón var leiftursnöggur að svara þegar hann var inntur eftir því hvort hann vissi eitthvað um valið á gula litnum.

„Söguna má rekja til ársins 1950 þegar Karl Guðmundsson, fyrirliði íslenska landsliðsins og leikmaður Fram, var í námi í íþróttafræðum í Köln í Þýskalandi,“ segir Jón en Karl hafði þjálfað lið ÍA árið 1948 samhliða því að hann lék með Fram.

„Þessi tenging Karls við ÍA varð til þess að Guðmundur Sveinbjörnsson þáverandi formaður ÍA hafði samband við Karl í Þýskalandi. Guðmundur óskaði eftir aðstoð við að útvega búninga fyrir ÍA. Áður en þessi búningur kom þá lék liðið í hvítum skyrtum og bláum buxum. Á þessum árum mættu leikmenn til leiks í hvítu spariskyrtunum sínum.“

 

Guðmundur hafði þá ósk að fá búninga sem skáru sig frá þeim litum sem voru notaðir af knattspyrnuliðunum í Reykjavík. Rauði liturinn var Valsbúningurinn, sá blái hjá Fram, og KR var með hvítar og svartar rendur á búningunum.

„Karl keypti búninga eins og óskað var eftir. Hann valdi gulan og svartan búning og þannig var liturinn ákveðinn,“ segir Jón.

Skagamenn klæddust þessum búningi fyrst vorið 1951 og þá var komið nýtt merki og urðu Íslandsmeistarar, fyrstir liða utan Reykjavíkur. Á sama tíma og nýji búningurinn kom var merki félagsins líka breytt í það sem enn er notað í dag.

Auglýsing



Auglýsing