Framúrskarandi fyrirtækjum fjölgar á lista Creditinfo – Bjarmar á Akranesi heldur sínu striki

Creditinfo birtir í dag lista yfir Framúrskarandi fyrirtæki fyrir rekstrarárið 2020. Þetta er í tólfta sinn sem Creditinfo veitir Framúrskarandi fyrirtækjum viðurkenningu.

Í ár eru 853 fyrirtæki á listanum eða um 2 prósent allra virkra fyrirtækja á Íslandi.

Skráningum á listann fjölgar lítillega á milli ára en á sama tíma í fyrra voru 842 fyrirtæki á listanum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Creditinfo.


Rétt rúm fimm prósent fyrirtækja á lista Creditinfo yfir Framúrskarandi fyrirtæki eru á Vesturlandi, eða 43 af 853.


Rétt rúm fimm prósent fyrirtækja á lista Creditinfo yfir Framúrskarandi fyrirtæki eru á Vesturlandi, eða 43 af 853. Útgerð og fiskvinnsla er áberandi á listanum, en annars er um að ræða fjölbreytt fyrirtæki af margvíslegum toga, stór, meðalstór og lítil.

Fimm efstu sæti listans á Vesturlandi eru öll í flokki stórra fyrirtækja, en þau skipa byggingarfyrirtækið Borgarverk í Borgarnesi sem er í 92. sæti á heildarlista Framúrskarandi fyrirtækja, Hraðfrystihús Hellissands (í 101. sæti), útgerðin Runólfur Hallfreðsson ehf. (133. sæti) og Sementsverksmiðjan (207. sæti) á Akranesi, og svo útgerðarfyrirtækið Sæfell (219. sæti) í Stykkishólmi.

Eitt fyrirtækjanna 43 hefur átt sæti á lista Creditinfo yfir Framúrskarandi fyrirtæki allt frá upphafi, en það er fyrirtækið Bjarmar á Akranesi.

Þá koma sex fyrirtæki ný inn á listann, Fiskmarkaður Snæfellsbæjar Ólafsvík, Telnet, Eðallagnir og Oliver á Akranesi, Guðmundur Runólfsson hf. Grundarfirði, og verktakafyrirtækið Kolur í Búðardal.

Framúrskarandi fyrirtækjum fjölgar milli ára

Fyrirtækjum í ferðaþjónustu fækkar mikið – Byggingar- og sjávarútvegsfyrirtækjum fjölgar – Hlutfall kvenna í stjórnum og meðal stjórnenda stendur í stað

Samsetning listans getur breyst nokkuð á milli ára, en til að teljast til Framúrskarandi fyrirtækja þurfa fyrirtæki að uppfylla ströng skilyrði um stöðugan rekstur þrjú ár aftur í tímann.

Fyrirtæki raðast á listann eftir ársniðurstöðu, en í ár vermir Marel efsta sæti listans. Fyrirtækið hefur nú verið á lista Framúrskarandi fyrirtækja samfleytt frá árinu 2013. Í öðru sæti er Eyrir Invest sem kom nýtt inn á lista 2019 og í því þriðja Landsvirkjun, sem setið hefur á listanum frá árinu 2018.

„Afar ánægjulegt er að sjá fjölgun Framúrskarandi fyrirtækja á milli ára og þá sérstaklega í ljósi þess hversu erfitt árið var mörgum fyrirtækjum og þá sér í lagi þeim sem orðið hafa fyrir hvað mestum neikvæðum áhrifum vegna kórónuveirufaraldursins. Líklega er alveg óhætt að segja að fyrirtækin sem á listanum eru í ár séu sannarlega þau sem skara fram úr, en um leið endurspeglar hann áhrif efnahagsaðstæðna á einstaka geira. Til að teljast framúrskarandi þarf að uppfylla strangar kröfur og fyrirtækin sem það gera eru líklegri til að ná árangri og standast áföll. Fyrirtækin á listanum mega því vel vera stolt af árangri sínum,“ segir Hrefna Ösp Sigfinnsdóttir, framkvæmdastjóri Creditinfo á Íslandi.

Ferðaþjónustufyrirtækjum fækkar

Flest fyrirtæki á listanum eru meðalstór eða 398 talsins, 230 stór fyrirtæki og 225 flokkast sem lítil. Í flokki stórra fyrirtækja er Marel í efsta sæti, í öðru sæti er Eyrir Invest, sem kom nýtt inn á listann í fyrra og Landsvirkjun er í því þriðja. DK Hugbúnaður er í efsta sæti í flokki meðalstórra fyrirtækja á listanum og þar á eftir Al-verk og Örninn Hjól. Í flokki lítilla fyrirtækja var Heyrnartækni efst á lista og þar á eftir komu Tæknibær og Barnabörn.

Það sem einkennir listann í ár er að byggingarfyrirtækjum fjölgar líkt og í fyrra og eru nú orðin 127 talsins. Fyrirtækjum sem flokkast undir ferðaþjónustu fækkar verulega á lista, eða úr 70 fyrirtækjum í lok síðasta árs niður í 23 núna. Gera má ráð fyrir að fækkunin sé vegna áhrifa COVID-19 faraldursins og tilheyrandi fækkunar ferðamanna á rekstur ferðaþjónustufyrirtækja. Þá fjölgar fyrirtækjum í sjávarútvegi úr 60 í 69.

124 koma ný inn á lista

Af fyrirtækjunum 853 hafa 60 verið framúrskarandi frá upphafi, en nokkur hreyfing getur verið inn og út af lista í takti við breytingar á rekstrarumhverfi fyrirtækja.

Þannig hefur 51 fyrirtæki í flokki stórra fyrirtækja fallið út af lista í ár, og þá helst vegna neikvæðs rekstrarhagnaðar (12%) og neikvæðrar ársniðurstöðu (15%), en 4% detta út vegna lækkunar á lánshæfismati og 2% skiluðu ekki ársreikningi í tíma.

Um leið koma inn á listann 124 ný fyrirtæki, þar af 48 stór. Efstu fimm nýju fyrirtækin eru Landsnet, Útgerðarfélag Reykjavíkur, Búseti, FISK-Seafood og Þorbjörn.

Creditinfo hefur jafnframt fylgst með þróun á kynjahlutfalli æðstu stjórnenda fyrirtækjanna, í stjórnum og framkvæmdastjórnum þeirra. Sé miðað við listann eins og hann er í dag og í lok árs síðustu ár er litla hreyfingu að sjá á milli ára. Hlutfall kvenna í framkvæmdastjórn fyrirtækja er óbreytt á milli ára 11,6% og þá hefur hlutfall kvenna í stjórnum Framúrskarandi fyrirtækja verið nokkuð stöðugt síðustu fjögur ár, 23 til 24%, en var fyrstu fimm ár listans, fyrir árin 2009 til 2013, 17 til 19%. Rétt er þó að árétta að hlutfallið endurspeglar samsetningu listans á hverju ári, en hún getur verið nokkuð breytileg milli ára.

Skilyrði sem Framúrskarandi fyrirtæki þurfa að uppfylla:

• Fyrirtækið er í lánshæfisflokki 1-3

• Ársreikningi er skilað lögum samkvæmt eigi síðar en átta mánuðum eftir uppgjörsdag

• Fyrirtækið er virkt samkvæmt skilgreiningu Creditinfo

• Framkvæmdarstjóri er skráður í fyrirtækjaskrá RSK

• Rekstrartekjur eru að lágmarki 50 milljónir króna síðustu þrjú ár

• Rekstrarhagnaður (EBIT > 0) síðustu þrjú ár

• Jákvæð ársniðurstaða síðustu þrjú ár

• Eiginfjárhlutfall a.m.k. 20% síðustu þrjú ár

• Eignir eru að minnsta kosti 100 milljónir króna síðustu þrjú ár