„Þetta er skemmtilegt verkefni sem vonandi verður framhald á. Hugmyndin er sótt til Vestmannaeyja þar sem að svipuð verkefni hafa verið gerð.
Ég hefði viljað hafa meiri tíma til að gera fleiri slíkar myndir en það gafst ekki tími í það vegna vinnu,“ segir Björn Lúðvíksson sem er einn af fimm listamönnum á Akranesi sem lífga upp á bæjarlífið á Vökudögum með skemmtilegum útfærslum á ruslatunnum á Akranesi.
Björn segir að Akraneskaupstaður hafi falið nokkrum listamönnum að fara í þetta verkefni og fimm þeirra svöruðu kallinu.
„Það er alveg frjálst val hvað varðar hugmyndir. Ég ákvað að gera mynd í stíl við ákveðna myndaröð sem ég hef aðeins verið að gera með Akranesvita en hef þar notað tússliti. Þetta er einhverskonar Psychedelic mynd en ég notaði sterkt vélalakk á tunnuna.
Þetta er mjög skemmtilegt og lífgar upp á bæinn. Ég hef ekki séð hvað hinir hafa gert en það má sjá á vökudagakortinu hvar tunnurnar eru staðsettar og hverjir gera hvaða tunnu,“ segir Björn Lúðvíksson en tunnan eftir hann er staðsett við strætóskýli við Kalmansbraut.