Flosi, Gunnar Sturla og Einar fengu menningarverðlaun Akraness 2021

Menningarverðlaun Akraness voru afhent í gær þegar Vökudagar voru formlega settir.

Þremenningarnir Flosi Einarsson, Gunnar Sturla Hervarsson og Einar Viðarsson hlutu menningarverðlaun Akraness fyrir framlag sitt til listgreina innan skólasamfélagsins.

Þeir hafa frumsamið og leikstýrt fjölda söngleikja við fádæma undirtektir.

Fyrst var Frelsi sýnt, en höfundar þess voru Flosi Einarsson og Gunnar Sturla Hervarsson. Einar Viðarsson bættist í hópinn þegar Hunangsflugur og villikettir komust á fjalirnar.

Draumaleit var svo samstarfsverkefni við skóla á Ítalíu, í Svþjóð og Tyrklandi. Sá söngleikur var sýndur í hverju landi fyrir sig og loks var sameiginleg sýning haldin í Stokkhólmi í desember 2007.

Enn fremur hafa litið dagsins ljós söngleikirnir Vítahringur (2009), Nornaveiðar (2012) og Úlfur, úlfur (2015).