Heiðurstónleikar í tilefni níræðisafmælis Hauks fara fram Hallgrímskirkju

Haukur Guðlaugsson, fyrrum söngmálastjóri þjóðkirkjunnar, varð níræður á árinu, nánar til tekið 5. apríl s.l. Af þessu tilefni verður efnt til vandaðra tónleika Hauki til heiðurs og verða þeir í Hallgrímskirkju sunnudaginn 31. október kl. 17.00. Frá þessu er greint á vef Þjóðkirkjunnar.

Haukur var skólastjóri Tónlistarskólans á Akranesi 1960–1974. Þá var hann einnig organisti og kórstjóri Akraneskirkju 1960–1982 og kórstjóri Karlakórsins Svana.

Dagskráin er fjölbreytileg og að hluta til valin í samvinnu við afmælisbarnið. Gamlir nemendur hans koma fram á tónleikunum, sumir leika á orgel og aðrir syngja. Kór Akraneskirkju og Söngfjélagið tekur þátt í þessu verkefni.

Þau sem koma fram:

Björn Steinar Sólbergsson, orgel
Ásta Marý Stefánsdóttir, sópran
Kammerkór Seltjarnarneskirkju, stjórnandi Friðrik Vignir Stefánsson
Kór Akraneskirkju & Söngfjelagið, stjórnandi Hilmar Örn Agnarsson.

Ókeypis er inn á tónleikana og allir eru hjartanlega velkomnir!


Glæsilegur ferill

Segja má að hann sé lifandi goðsögn í íslenskum kirkjutónlistarheimi og hefur mikill fjöldi tónlistarfólks setið við fótskör hins aldna meistara og lært af honum. Öll þau sem þekkja Hauk vita hversu mikill mannvinur hann er sem og ljúfmenni. Þau vita líka að hann er kröfuharður kennari og snjall, kennari sem gefst aldrei upp. Ógleymanlegur.

Haukur Guðlaugsson fæddist á Eyrarbakka 5. apríl 1931. Hann hóf píanónám 13 ára og lauk burtfararprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík 1951 undir handleiðslu Árna Kristjánssonar. Hann stundaði orgelnám við Staatliche Hochschule für Musik í Hamborg 1955–1960 og var aðalkennari hans þar prófessor Martin Günther Förstemann. Framhaldsnám í organleik stundaði hann við Accademia di Santa Cecilia í Róm hjá Maestro Fernando Germani 1966, 1968 og 1972.

Haukur var tónlistarkennari og kórstjóri Karlakórsins Vísis á Siglufirði 1951–1955 og skólastjóri Tónlistarskólans á Akranesi 1960–1974. Þá var hann einnig organisti og kórstjóri Akraneskirkju 1960–1982 og kórstjóri Karlakórsins Svana.

Hann var Söngmálastjóri íslensku Þjóðkirkjunnar og skólastjóri Tónskóla Þjóðkirkjunnar 1974–2001. Þá stóð hann árlega fyrir organista- og kóranámskeiðum á hinu forna biskupssetri í Skálholti í 27 ár.

Á starfsferli sínum stóð hann m.a. fyrir útgáfu um 70 nótna- og fræðslubóka fyrir kóra og organista. Hann hefur haldið orgeltónleika víða á Íslandi, í Evrópu og Bandaríkjunum og leikið einleik á orgel með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Einnig hafa kórar undir hans stjórn haldið tónleika á Íslandi og víða í Evrópu og í Ísrael. Þá hefur hann leikið á píanó í samleik á tónleikum, bæði með sellói, fiðlu og ýmsum blásturshljóðfærum og einnig með söngvurum, á Íslandi og í Evrópu.

Haukur og Gunnar Kvaran sellóleikari hafa spilað mikið saman, m.a. á eftirminnilegum minningartónleikum á 125 ára fæðingarafmæli Pablo Casals árið 2001, í fæðingarbæ hans Vendrell í Katalóníu. Grímhildur Bragadóttir, eiginkona Hauks, hefur einmitt þýtt ævisögu Casals á íslensku. Haukur hefur gert upptökur fyrir útvarp, sjónvarp og á hljómplötur og geisladiska. Hann gaf út tvo tvöfalda geisladiska (2011 og 2020) þar sem hann leikur á mörg orgel á Íslandi og í Hamborg.

Hann hefur samið og gefið út Kennslubók í organleik í þremur bindum. Haukur hefur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir störf sín. Hann er heiðursfélagi bæði í Félagi íslenskra organleikara og í Félagi íslenskra tónlistarmanna. Árið 1983 sæmdi Vigdís Finnbogadóttir forseti Íslands hann riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu og árið 2008 hlaut hann Liljuna, sérstök tónlistarverðlaun íslensku Þjóðkirkjunnar.

Haukur hefur alla tíð farið flestra sinna ferða á reiðhjóli, löngu áður en það komst í tísku. Á meðan aðrir keyrðu um borð í Akraborgina, þá hjólaði Haukur um borð!

Dagskráin

Léon Boëllmann 1862-1897
Suite Gothique
Toccata
Ávarp: Sr. Irma Sjöfn Óskarsdóttir
Camille Saint-Saëns
 1835–1921
Le Cygne / Svanurinn 
    Umritun: Fernando Germani
Páll Ísólfsson 1893–1974 Ostinato et fughetta Máríuvers
    Umritun: Haukur Guðlaugsson
Víst ertu, Jesús, kóngur klár – sálmforleikur og almennur söngur
Steingrímur Þórhallsson *1974
H.A.
Samið að beiðni Félags Íslenskra Orgelleikara í tilefni af níræðis afmæli Hauks Guðlaugssonar
Felix Mendelssohn Bartholdy 1809–1847
Hymne fyrir sópran, kór og orgel
Johann Sebastian Bach 1685–1750
Hjörð í sumarsælum dölum BWV 208
    Raddsetning/umritun: Jón Þórarinsson & Stainton de B. Taylor
Slá þú hjartans hörpustrengi BWV 147kór og orgel
    Umritun: Maurice Duruflé
Siciliano, úr flautusónötu BWV 1031
    Umritun: Haukur Guðlaugsson
Toccata et fuga d-moll BWV 565.