Hákon Arnar skoraði sitt fyrsta mark fyrir FCK og valinn maður leiksins

Hákon Arnar Haraldsson átti frábæran leik með danska stórliðinu FCK í Kaupmannahöfn í 3-0 sigri liðsins gegn Vejle í dönsku úrvalsdeildinni.

Hákon Arnar, sem er fæddur árið 2003, var í fyrsta sinn í byrjunarliði FCK og þakkaði hann traustið með því að skora sitt fyrsta mark fyrir FCK í efstu deild.

Skagamaðurinn var valinn maður leiksins en hann skoraði markið með skalla og er hann að stimpla sig inn í baráttuna um sæti í byrjunarliðinu hjá þessu stóra liði.

Hákon Arnar hefur æft með aðalliði FCK á þessu tímabili en hann hefur leikið vel á undanförnum mánuðum með unglinga – og varaliði félagsins.

Ísak Bergmann Jóhannesson var ekki í leikmannahóp FCK í dag en liðið er í öðru sæti deildarinnar, með 28 stig, sex stigum á eftir Midtjylland, þegar 14 umferðum er lokið í deildinni.