Smári tekur þátt á Vökudögum með myndlistarsýningu á Spáni

„Þessi sýning er langþráður draumur sem er að rætast hjá mér,“ segir Skagamaðurinn Smári Jónsson sem stendur fyrir myndlistarsýningu í bænum Altearte í Altea á Spáni. Í Altearte er mjög virtur listamannabar sem er með ýmiskonar listviðburði og afþreyingu og þar mun Smári sýna verk sín.

„Á þessum stað hittist fólk til þess að aðstoða hvert annað við t.d. að læra tungumál, aðallega ensku – og spænsku. Samhliða því er boðið upp á allskonar afþreyingu, bókaklúbb, kvikmyndakvöld og ýmislegt annað. Þar á meðal er myndlistasýning í hverjum mánuði, einkasýningar og samsýningar. Í febrúar 2020 var mér boðið að taka þátt í samsýningu með einum þekktasta listamanni bæjarins. Þar sýndu átta listamenn af fimm mismunandi þjóðernum. Það var virkilega gaman að taka þátt í því verkefni,“ segir Smári en einkasýning hans hefur átt sér langan aðdraganda.

„Haustið 2019 buðu eigendur staðarins mér að setja upp einkasýningu. Það boð var mikill heiður fyrir mig. Það stóð til að sýningin yrði opnuð í apríl 2020 en ekkert varð af því þar sem að á þeim tíma var mjög strangt útgöngubann hér á Spáni vegna Covid-19 heimsfaraldursins. Staðan er betri núna, fá smit, og það er því möguleiki að halda þessa sýningu.“

Nafn sýningarinnar er Heimþrá eða Homesick og segir Smári að nafnið tengist því að myndefnið sé að stórum hluta innblásið frá heimabænum Akranesi og nærumhverfi.

„Ég sýningunni eru 30 verk sem ég hef unnið hér á Spáni á þeim sex árum sem við hjónin höfum búið hér í Altea. Tímasetningin er einnig skemmtileg þar sem að nú standa yfir Vökudagar á Akranesi. Ég get því sagt að ég sé að taka þátt í Vökudögunum héðan frá Spáni þetta árið,“ segir Smári Jónsson við Skagafréttir.


Hjónin Smári og Guðbjörg Nielsdóttir Hansen eru eins og áður segir búsett á Altea á Spáni. Þar hafa þau búið undanfarin sex ár. Smári er best þekktur hér á Skaganum sem „Smári kokkur“.

http://localhost:8888/skagafrettir/2020/04/02/skagamadur-a-spani-synir-listaverkin-i-beinni-a-netinu-heimthra-opnar-a-fostudag/