Aron Kristófer yfirgefur ÍA og gengur í raðir KR

Aron Kristófer Lárusson mun ekki leika áfram með Knattspyrnufélagi ÍA. Aron Kristófer hefur komist að samkomulagi við KR og skrifaði hann undir samning til fjögurrra ára. Aron Kristófer er 23 ára og hefur hann leikið með ÍA frá árinu 2019. Hann kom á Skagann frá uppeldisfélaginu Þór á Akureyri en Aron Kristófer lék einnig með liði Völsungs á Húsavík.

Hann lék alls 19 leiki með ÍA í efstu deild á síðustu leiktíð. Faðir Arons Kristófers er Lárus Orri Sigurðsson sem lék með ÍA í yngri flokkum. Varnarmaðurinn sterki lék síðar sem atvinnumaður á Englandi á árunum 1994-2004, með Stoke og WBA. Árið 2010 lék Lárus Orri 2 leiki með ÍA eftir að hafa verið í herbúðum Þórs 2005-2009.

Afi Arons Kristófers, Sigurður Lárusson, var leikmaður ÍA á árunum 1979-1988 og einn lykilleikmaður þess á þeim tíma og lék alls 295 leiki fyrir félagið. Hann var fyrirliði liðsins lengstan þess tíma sem hann lék með því og á þeim tíma leiddi hann liðið til tveggja Íslandsmeistaratitla 1983 og 1984 og fjögurra bikarmeistaratitla 1982,1983,1984,1986. Sigurður Lárusson lést í byrjun ársins 2018 eftir skammvinn veikindi 63 ára að aldri.