Draumahögg Bjarna Þórs á Spáni tryggir aðgang í vinsælasta golfklúbb landsins

Bjarni Þór Bjarnason er ekki aðeins afar lipur listamaður – en listmálarinn er einnig lunkinn kylfingur. Bjarni Þór sló draumahöggið í golfi í dag á spænska golfsvæðinu Bonalba rétt við Alicante.

Hann greindi frá þessu á fésbókarsíðu sinni í dag.

Samkvæmt tölfræðisamantekt um líkurnar á því að fara holu í höggi eru slík högg oftast sleginn á þriðjudögum – eins og Bjarni Þór gerði í morgun.

Þar með hefur Bjarni Þór fengið inngöngu í vinsælasta golfklúbb landsins – Einherjaklúbbinn.

Allir kylfingar hafa látið sig dreyma um að fara holu í höggi en hverjar eru líkurnar á því að slíkt gerist?

Á hverju ári eru um 150.000 draumahögg slegin á heimsvísu.

Samkvæmt tölfræði sem birt er á vef Einherjaklúbbsins á Íslandi fara 1% kylfinga landsins holu í höggi árlega. Rétt tæplega þó, því 130-140 draumahögg eru slegin árlega af íslenskum kylfingum.

12.500 – Meðalkylfingur þarf 12.500 tilraunir til þess að ná því að fara holu í höggi.

5.000 – Lágforgjafarkylfingur þarf um 5.000 tilraunir til þess að slá boltann ofan í holuna í teighögginu.

2.500 – Atvinnukylfingar þurfa aðeins færri tilraunir, eða um 2.500, til þess að sjá boltann detta ofaní holuna eftir upphafshöggið.

51 – Oftast allra – heimsmet: Bandaríkjamaðurinn Mancil Davis er sá kylfingur sem hefur oftast farið holu í höggi. Davis er PGA-kennari og hefur slegið draumahöggið í 51 skipti á ferlinum.