Arnór Sigurðsson, leikmaður ítalska úrvalsdeildarliðsinsVenezia, gat ekki gefið kost á sér í A-landsliðshóp karla fyrir næstu tvo leiki liðsins vegna smávægilegra meiðsla. Þetta kemur fram í frétt á fotbolti.net.
Arnór er 22 ára gamall og er samningsbundinn rússneska úrvalsdeildarliðsins CSKA í Moskvu – en hann er á láni hjá ítalska liðinu. Arnór lék fyrstu þrjá leikina á tímabilinu á Ítalíu áður en hann varð fyrir meiðslum í innanverðu læri. Hann lék síðast meðVenezia þann 23. október s.l. þar sem að meiðslin tóku sig upp að nýju.
Arnór gat því ekki gefið kost á sér í verkefnið með landsliðinu í nóvember og stefnir að því að koma sér á fullt með Venezia.
„Ég kom inná á móti Sassuolo og fékk smá bakslag, þannig við töldum það réttast í stöðunni að ég yrði hérna og myndi ná mér að fullu hérna úti. Þetta var bara ákveðið í sameiningu að það væri best heldur en að fara í þetta verkefni með einhver meiðsli því þá myndi tíminn lengjast með að koma mér í gang hjá félaginu,“ sagði Arnór við Fótbolta.net en hann ætlar að nýta tímann til þess að ná bata.
Arnór á að baki 16 landsleiki og 1 mark með landsliðinu en hann hefur verið fastamaður í hópnum síðustu ár.
Ísland leikur gegn Rúmeníu og Norður-Makedóníu í nóvember.