167 greindust með kórónuveiruna innanlands hér á landi í gær. Aldrei hafa svo margir greinst með veiruna frá upphafi faraldursins í febrúar 2020. Á Vesturlandi greindust 22 einstaklingar með Covid-19 smit og er heildartala smita í landshlutanum 134 samkvæmt upplýsingum á covid.is. Tæplega 400 einstaklingar eru í sóttkví í landshlutanum.
Þetta kemur fram í uppfærðum tölum á vefnum Covid.is, en fyrri metfjöldi var 154 þann 30. júlí síðastliðinn..
45 af þeim 167 sem greindust innanlands í gær voru í sóttkví við greiningu, eða 27 prósent. 122 voru utan sóttkvíar, eða 73 prósent.
Á síðustu fjórum dögum hefur gríðarleg aukning verið á Covid-19 smitum á Akranesi. Á þriðjudaginn 2. nóvember voru 11 í einangrun vegna Covid-19 smita, daginn eftir bættust 14 í þann hóp og talan fór í 25 smit, og á fimmtudaginn bættust 50 nýir einstaklingar í hóp þeirra sem eru með Covid-19 smit á Akranesi.
Ekki liggur fyrir hversu mörg ný smit greindust í gær á Akranesi en Lögreglan á Vesturlandi á eftir að birta þær upplýsingar.
Bæjarráð Akraness komst að þeirri niðurstöðu í gær að fella niður alla starfsemi í leikskólum, grunnskólum, tónlistarskóla og frístundastarfi bæjarins frá og með deginum í dag.
Allar íþróttaæfingar á vegum félaga innan ÍA falla niður í dag og fram yfir helgi í það minnsta. Þreksalnum í Jaðarsbökkum hefur einnig verið lokað.
Móttöku einnota umbúða í Fjöliðjunni hefur verið lokað um óákveðinn tíma og Búkollu hefur einnig verið lokað um óákveðinn tíma.
Gamla Kaupfélagið hefur fellt og aflýst viðburðum sem voru á dagskrá um næstu helgi.
Tónlistarhátíðinni HEIMA-SKAGI hefur einnig verið frestað.
Fjarkennsla er í Fjölbrautaskóla Vesturlands. Tæknimessunni hefur einnig verið frestað um óákveðinn tíma.