Söfnuðu veglegri upphæð fyrir Krabbameinsfélagið með sölu á frumlegu kerti

„Okkur langaði að láta gott af okkur leiða í októbermánuði og styrkja gott málefni með kertasölu. Krabbameinsfélag Akraness varð fyrir valinu og salan gekk vonum framar,“ segir Freydís Björg Óttarsdóttir sem afhenti félaginu 100.000 kr. í dag eftir vel heppnað góðgerðarverkefni sem hún stóð að með tengdamóður sinni, Steinunni Hallgrímsdóttur.

Freydís og Steinunn framleiddu áhugaverð kerti fyrir þetta verkefni sem vakti athygli og seldist vel.

„Við fundum skemmtileg „mót“ sem hentaði vel í þetta verkefni fyrir Krabbameinsfélagið og kertin seldust mjög vel. Við erum þakklátar fyrir móttökurnar. Tengdamamma hefur lengi verið að bræða kerti. Ég byrjaði á þessu þegar ég kynntist henni. Mér fannst það sem hún var að gera mjög áhugavert og skemmtilegt. Við erum að framleiða kertin heima hjá henni – og notum allskonar kerti í framleiðsluna, ný og notuð,“ segir Freydís þegar hún er innt eftir því hvernig kertaframleiðslan hófst hjá henni.

Hulda Gestsdóttir, gjaldkeri Krabbameinsfélags Akraness, segir að framtak þeirra Freydísar og Steinunnar sé frábært og að peningarnir komi að góðum notum í starfi félagsins.