Alls má rekja 130 Covid-19 smit til skemmtunar á Akranesi

Alls má rekja 130 Covid-19 smit til skemmtunar sem fram fór á Akranesi fyrir rúmri viku. Þetta kemur fram í viðtali á RÚV við Þóri Bergmundsson sem er framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilbrigðisstofnun Vesturlands og umdæmissóttvarnalæknir Vesturlands.

Í gær greindist metfjöldi Covid-19 smita á landinu öllu eða 168 og þar af voru 14 á Akranesi. Frá upphafi Covid-19 faraldursins hafa ekki greinst eins mörg smit á Íslandi. Tæpur helmingur þeirra sem greindust með smit voru í sóttkví. Flestir eru í einangrun með virkt smit á höfuðborgarsvæðinu og svo á Vesturlandi.

Þórir segir að ekki sé mikið um veikindi enn sem komið er hjá þeim sem hafa smitast að undanförnu.

„Nokkrir eru með slæm inflúensueinkenni. En það er bara rúm vika síðan þetta kom upp og þessi alvarlegu veikindi koma ekki fram fyrr en eftir þann tíma.“ Það sé þó jákvætt að það hafi dregið talsvert úr fjölda daglegra smita í bænum.