Gagnrýna mikla launahækkun til æðstu embættismanna Akraneskaupstaðar

Bæjarstjórn Akraness samþykkti á síðasta fundi sínum að vísa fjáhagsáætlun Akraneskaupstaðar vegna ársins 2022 og þriggja ára áætlun vegna tímabilsins 2023 til og með 2025, til síðari umræðu í bæjarstjórn sem fer fram þriðjudaginn 14. desember næstkomandi.

Á fundinum, sem fram fór þriðjudaginn 9. nóvember, lögðu bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks fram bókun þar sem að ákvörðun meirihluta bæjarstjórnar um mikla launahækkun til æðstu embættismanna Akraneskaupstaðar var harðlega gagnrýnd.

Í fjárhagsáætluninni kemur m.a. fram lagt sé til að sviðsstjórar Akraneskaupstaðar fái tæplega 200.000 kr. hækkun á launum sínum á mánuði. Um er að ræða fimm starfsmenn.

Bæjarfulltrúar Samfylkingar og Framsóknar og frjálsra svöruðu þeirri gagnrýni eins og sjá má hér fyrir neðan. Í svari meirihlutans kemur m.a. fram að mikilvægt sé að hækka laun sviðsstjóra með hliðsjón af álagi og unnum yfirvinnustundum þeirra.

Bókun bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

„Sjálfstæðisflokkurinn gagnrýnir harðlega ákvörðun meirihluta bæjarstjórnar um mikla launahækkun til æðstu embættismanna Akraneskaupstaðar. Um er að ræða prósentuhækkun sem erfitt er að finna fordæmi fyrir í rekstri bæjarfélagsins, hækkun sem sendir ekki rétt skilaboð inn í komandi kjarasamningsviðræður við stóran hluta starfsmanna kaupstaðarins.

Laun og launatengd gjöld Akraneskaupstaðar hafa hækkað hraðar en útsvarstekjur á undanförnum árum og í ársreikningi fyrir árið 2020 voru laun og launatengd gjöld um 73% af heildartekjum bæjarsjóðs. Rétt er að benda á að í sögulegu samhengi hefur það aldrei verið hærra hjá Akraneskaupstað og var það hæsta sem sást á þeim tíma hjá sveitarfélögum á Íslandi. Nú er svo komið að útsvarstekjur kaupstaðarins duga illa fyrir launum og launatengdum gjöldum. Áhyggjuefni sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur bent reglulega á en fær því miður að vaxa í tíð núverandi meirihluta Samfylkingarinnar og Framsóknar og frjálsra.

Nú stendur yfir vinna við fjárhagsáætlun Akraneskaupstaðar fyrir árin 2022-2025 þar sem blasa við áskoranir í að viðhalda rekstrarjafnvægi hjá kaupstaðnum. Erfitt er að verða við fjölmörgum beiðnum forstöðumanna stofnana þar sem fjármunir eru af skornum skammti. Ákvörðun um launahækkun til örfárra starfsmanna skýtur því skökku við og er með öllu taktlaus þegar verkefni bæjarstjórnar er að auka framleigð í rekstri öllum til hagsbótar.“

Svar bæjarfulltrúa Samfylkingar og Framsóknar og frjálsra:

„Bæjarfulltrúar Samfylkingar og Framsóknar og frjálsra telja mikilvægt að hækka laun sviðsstjóra með hliðsjón af álagi og unnum yfirvinnustundum þeirra. Í greiningu sem unnin var kemur fram að meðaltals yfirvinnustundir sviðsstjóra hjá Akraneskaupstað eru rúmlega 50 yfirvinnustundir á mánuði en þeir hafa ekki fengið greitt fyrir þá vinnu.

Í þeirri tillögu sem bæjarfulltrúar Samfylkingar og Framsóknar og frjálsra samþykktu er lagt upp með að greiða 16 yfirvinnustundir á mánuði ofan á grunnlaun sviðsstjóra og með þessu er verið að koma á móts við það umfang og álag sem felst í viðkomandi störfum.

Í greiningu Haraldar Líndal Haraldssonar sem framkvæmd var í september 2020 á launakjörum sviðsstjóra hjá 9 sveitarfélögum, kom jafnframt fram að hvort sem miðað var við fámennari eða fjölmennari sveitarfélög þá voru laun sviðsstjóra hjá Akraneskaupsstað mun lægri heldur en meðaltalslaun fyrir sambærileg störf hjá öðrum sveitarfélögum. Mismunurinn á launum sviðsstjóra Akraneskaupstaðar og meðaltalslaunum sviðsstjóra hjá öðrum sveitarfélögum var um 392 þúsund krónur samkvæmt greiningu Haraldar. Sú tillaga sem bæjarfulltrúar Samfylkingar og Framsóknar og frjálsra samþykktu felur í sér að ganga hluta leiðar í að jafna þennan launamun og nemur launahækkunin nú um 185 þúsund krónum.

Á síðasta kjörtímabili var lagt upp í þá vegferð að hækka laun sviðsstjóra og þá var mikilvægt skref stigið í þá átt. Á fundi bæjarráðs í janúar 2018 var ákveðið að þegar vinnu við starfsmat væri lokið yrðu teknar ákvarðanir um frekari launahækkanir í samræmi við launakjör sviðsstjóra hjá öðrum sveitarfélögum. Við það hefur ekki verið staðið fyrr en nú. Núverandi bæjarráð er því að standa við fyrirheit sem gefið var í tíð bæjarráðs fyrri bæjarstjórnar.

Rétt er að laun- og launatengd gjöld hafa farið vaxandi hjá Akraneskaupstað á undanförnum árum og sú staða er sambærileg við þróunina hjá öðrum sveitarfélögum. Stöðugildum hefur fjölgað á undanförnum árum, einkum í félagsþjónustu og fræðslu- og uppeldismálum. Gróf nálgun sýnir að hækkun launakostnaðar á árunum 2015 – 2020 skýrist um það bil í 40% tilfella af fjölgun stöðugilda en um 60% af hækkun launakostnaðar á hvert stöðugildi.

Þrátt fyrir þetta stendur fjárhagsstaða Akraneskaupstaðar styrkum fótum þrátt fyrir þær áskoranir sem við höfum staðið fram fyrir á undanförnum árum og þrátt fyrir að við séum ekki að nýta alla okkar tekjustofna, samanber að fasteignaskattar hér séu lágir í samanburði við önnur sveitarfélög og að framlög Jöfnunarsjóðs séu lág.“

Fylgiskjöl: