Óli Palli beinir athygli Skagamanna að því sem er vel er gert á neðri-Skaganum

Ólafur Páll Gunnarsson, íbúi á Akranesi, hefur á undanförnum misserum endurgert tvö hús í gamla miðbænum á Akranesi, sem í dag eru á meðal glæsilegustu bygginga Akraness. Útvarpsmaðurinn þaulreyndi er sannkölluð eldsál þegar kemur að uppbyggingu á Akranesi og þá sérstaklega í gamla bænum – neðri-Skaganum.

Óli Palli skrifar áhugaverðan pistil um stöðu mála á þessu sviði á Akranesi og beinir kastljósinu með skemmtilegum hætti að því sem er vel gert í uppbyggingu og endurgerð húsa í gamla bænum.

Pistill Ólafs og myndir eru hér fyrir neðan.

Góðan daginn Skagamenn! Þegar við fjölskyldan fluttum aftur á Akranes fyrir bráðum fjórum árum, eftir næstum 30 ár í borginni og Hafnarfirði langaði mig hvergi að vera annarstaðar en á neðri- Skaganum – í gamla bænum.

Ég bjó á Bárugötu og Skólabraut þegar ég var pínulítill og svo í kjallaranum hjá ömmu Rannveigu á Vesturgötu 32 í 2 ár frá 1977 – 1979. Það var afskaplega góður tími í mínu lífi. Algjör blómatími þar sem mikið var um að vera alla daga – krakkar úti um allt – fótbolti á Merkurtúninu alla daga og margt skemmtilegt.

Þegar við vorum svo flutt fann ég fljótt að það var einhver skrýtin stemning í bænum varðandi þennan gamla kjarna bæjarins – miðbæinn og neðri-Skagann.

Það var eins og það þætti ekki eins fínt að búa í gamla bænum og í efri byggðum einhverra hluta vegna og mér finnst ég finna aðeins fyrir þessu ennþá.

En það hafði mikil áhrif til hins betra þegar hausaþurrkunarfnykurinn hvarf þegar markaðir fyrir þurrkaða þorskhausa í Nígeríu hrundi fyrir nokkrum árum. Fýlan sem lá allt of oft yfir okkur hérna niðri í bæ óumbeðið – hvarf sem betur fer, og síðan finnst mér margt hafa glæðst í gamla bænum og mér finnst fólk almennt hafa meiri áhuga á að búa í miðbænum og á neðri-Skaganum en oft áður.

Ég fór í göngutúr um bæinn núna einhverntíma í september og tók myndir af þeim húsum sem mér fannst falleg, er búið að laga eða er verið að laga. Og ég verð að segja að það er mín skoðun að mörg fallegustu hús bæjarins eru hér í gamla bænum þar sem mér finnst að fólk ætti að slást um að fá að búa. 101 Akranes.

Þetta er að mestu hús fyrir neðan kirkju og auðvitað eru þau mis-glæsileg.

Og svo það þetta: Ég vona svo innilega að bæjaryfirvöld sýni frumkvæði og lit með því að gera gamla glæsilega Landsbankahúsið (sem er teiknað af Skagamanninum Ormari Guðmundssyni) að ráðhúsi okkar Skagamanna. Það yrði ekkert annað en stöngin inn.

Bæjarskrifstofurnar eru í litlu leiguhúsnæði í dag, þurftu að flytja vegna myglu. Bærinn á þetta hús og það þarf bara að laga það sem er að – innrétta þannig að það hæfi starfseminni, og svo flytja inn. Það yrði heldur betur lyftistöng fyrir miðbæinn sem er heldur líflaus flesta daga því miður. Húsið er ekki ónýtt, það er ekki of lítið og við þurfum meira líf í miðbæinn.

En njótið þessarar litlu ljósmyndasýningar – sjáið hvað það eru mörg falleg og skemmtileg hús í gamla bænum. Ég vil vekja sérstaka athygli á húsinu við Deildartún sem var grænt og hrikalega ljótt en er orðið eitt glæsilegasta húsið í bænum. Það er svo margt hægt að laga með góðum vilja og auðvitað dálítlu af peningum 🙂