Skipulagsbreytingar eru fyrirhugaðar í skipuriti Akraneskaupstaðar – aðeins tæplega ári frá því að nýtt skipurit var sett á laggirnar. Þetta hefur Skagafréttir eftir öruggum heimildum.
Starf skrifstofustjóra á skrifstofu bæjarstjóra verður lagt niður í núverandi mynd en þessi staða var sett á laggirnar í lok ársins 2020 þegar nýtt skipurit Akraneskaupstaðar var samþykkt.
Sædís Alexía Sigmundsdóttir var ráðin í starfið í byrjun janúar á þessu ári en hún var áður verkefnastjóri hjá Akraneskaupstað. Sædís Alexía sagði upp störfum fyrr á þessu ári og hóf störf á skrifstofu Elkem í október s.l. sem verkefnastjóri innri og ytri samskipta.
Starf skrifstofustjóra var auglýst laust til umsóknar í lok ágúst á þessu ári og samkvæmt heimildum Skagafrétta bárust mjög margar umsóknir.
Bæjarstjórn Akraness á eftir að samþykkja breytinguna á skipuritinu með formlegum hætti. Samvkæmt heimildum Skagafrétta gæti annað starf, með breyttum áherslum, á skrifstofu bæjarstjóra verið auglýst laust til umsóknar að því ferli loknu.
Þetta er í annað sinn á stuttum tíma sem starf sem hefur verið auglýst hjá Akraneskaupstað er lagt niður eftir að umsóknarfrestur hefur liðið. Starf forstöðumanns íþróttamannvirkja Akraneskaupstaðar var lagt niður í september 2020. Staðan var auglýst um miðjan júlí 2020. og sóttu 15 aðilar um starfið – sem eins og áður segir var lagt niður.