Viðburðarík vika hjá Anítu Sól sem leikur til úrslita í SSC háskóladeildinni

Skagakonan Aníta Sól Ágústsdóttir var nýverið kjörin besti varnarmaðurinn í Sunshine State Conference í bandaríska háskólafótboltanum.

Aníta Sól leikur með Embry-Riddle háskólaliðinu sem er komið í úrslit í SSC deildinni.

Aníta Sól var þar að auki valin í úrvalslið deildarinnar en hún er fyrirliði Embry-Riddle sem er staðsett í Daytona, Flórída í Bandaríkjunum.

Embry-Riddle mun leika til úrslita í SSC deildinni eftir að hafa sigrað Rollins í spennandi leik í undanúrslitum þar sem að úrslitin réðust í vítaspyrnukeppni. Lokatölur 5-3 og það var Aníta Sól sem tryggði sigurinn þegar hún skoraði úr síðustu vítaspyrnu Embry-Riddle.

Embry-Riddle mætir liði Florida Tech í úrslitaleiknum sem fram fer á sunnudaginn en með því liði leikur önnur Skagakona, Veronica Líf Þórðardóttir. Aníta Sól og Veronica Líf eru náskyldar þar sem að þær eru systkinabörn.