Spurningakeppnin Bókaormar Brekkubæjarskóla fór nýverið fram en þetta var í níunda sinn sem slík keppni fer fram hjá 4.-7. bekk. Markmiðið með keppninni er að efla lestur nemenda yfir sumartímann. Frá þessu er greint á vef Brekkubæjarskóla.
Nemendur í 3. – 6. bekk fá að vori lista yfir þær bækur sem liggja til grundvallar í spurningakeppninni um haustið og þeir sem áhuga hafa geta því byrjað að undirbúa sig strax fyrir komandi keppni.
Gott samstarf er við Bókasafn Akraness og er bókalistinn ásamt eintökum af bókunum aðgengilegur þar á meðan skólasafnið er lokað yfir sumarið.
Þegar þessi sömu nemendur mæta í skólann að hausti í 4. – 7. bekk, halda þeir áfram að lesa og keppnin hefst upp úr miðjum október eða eftir vetrarfrí.
Úrslitaviðureignin að þessu sinni var á milli liða 7. bekkjar og 4. bekkjar.
Keppt er um farandbikar og fær árgangurinn nafnið sitt áritað á bikarinn. Einnig fær vinningsliðið í ár að velja 5-10 bækur sem verða keyptar inn fyrir skólasafnið.
Úrslitin urðu þau að 7. bekkur vann með fimm stiga mun.
Liðið skipuðu Dagný Bára Guðjónsdóttir, Iðunn Eybjörg Halldórsdóttir, Marinó Bjarki Brynjarsson og Arna Guðný Gautadóttir, sem var leikari hópsins.