Flottur árangur hjá sundfólki ÍA á fyrsta keppnisdegi ÍM 25

Íslandsmótið í sundi í 25 metra laug fer þessa dagana fram í Ásvallalaug í Hafnarfirði. Mótið hófst í gær og því lýkur á sunnudag. Alls eru 9 keppendur frá Sundfélagi ÍA á Akranesi. Þau náðu flottum árangri á fyrsta keppnisdegi með þrenn bronsverðlaun og þrjú Akranesmet voru sett.

Enrique Snær Llorens Sigurðsson vann brons í 400 m. skriðsundi á timanum 4.03.08 sem var þremur sekúndum hraðar en hann synti í undanrásum. Gamla metið átti mótstjóri ÍM, Leifur Guðni Grétarson á tímanum 4.10.68 frá árinu 2008.


Einar Margeir Ágústsson vann brons í 100m bringusundi á tímanum 1.06.50.

Í 4×200 m. skriðsundi unnu strákarnir okkar, Sindri Andreas Bjarnasson, Enrique Snær, Einar Margeir og Guðbjarni Sigþórsson bronsverlaun.

Kristján Magnússon setti Akranesmet í piltaflokki í 50 m skriðsundi á tímanum 24.76 sem var bæting frá mánaðar gömlu meti sem Einar Margeir átti á tímanum 25.00.

Þriðja Akranesmetið sem sett var á fyrsta keppnisdeginum var sett í 4 x 50 m í blandaðri boðsundsveit karla og kvenna í fjórsundi en hana skipuðu þau Enrique Snær, Einar Margeir, Guðbjörg Bjartey Guðmundsdóttir og Ragnheiður Karen Ólafsdóttir. Sveitin hafnaði í 4 sæti.

Sveit 2 varð í 8 sæti og þar syntu : Kristján, Karen Karadóttir, Sindri Andreas og Ingibjörg Svava Magnúsardóttir

Ragnheiður Karen Ólafsdóttir varð í 4. sæti í 100 m fjórsundi á 1.09.71, aðeins 0.05 frá bronsverlaunum.
Hún bætti sig vel í 200m bringusundi og hafnaði í 6. sæti.

Guðbjörg Bjartey varð 4. Í 50m skriðsundi á 27.09 sem er góð bæting hjá henni.

Einar Margeir varð í 4. sæti í 100m fjórsundi á 1.01.03 og Sindri Andreas nr. 5 á 1.01.38.

Í úrslitasundi í 50m skriðsundi karla var ÍA með þrjá sundmenn, Sindri Andreas varð nr 5, Kristjan Magnússon nr 7 og Enrique Snær nr 8.

Í 200m baksundi hafnaði Kristján í 6. sæti og Guðbjarni í 8.