Sindri Snær yfirgefur ÍA og semur við Keflavík til næstu þriggja ára

Sindri Snær Magnússon, sem hefur verið lykilmaður í karlaliði ÍA, mun ekki leika áfram með liðinu í efstu deild karla á næstu leiktíð. Sindri Snær, sem er 29 ára gamall, samdi í dag við Keflavík og er samningurinn til næstu þriggja ára.

Fregnir af brotthvarfri Sindra Snæs koma degi eftir að Óttar Bjarni Guðmundsson, fyrirliði ÍA, gekk í raðir Leiknis úr Reykjavík,

Sindri Snær hefur áður verið í herbúðum Keflavíkur en hann lék með liðinu á árunum 2014-2015. Sindri Snær hefur einnig leikið með ÍR, Breiðabliki og liði Selfoss árið 2014 áður en hann fór í Keflavík.

„Sindri Snær kemur með dýrmæta reynslu inní liðið okkar sem er ungt og mun leika í deild þeirra bestu að ári. Mikils er vænst af Sindra Snæ sem mun styrkja liðið okkar mikið og viljum við bjóða hann hjartanlega velkominn aftur til Keflavíkur og hlökkum til að sjá hann á vellinum!“ segir í tilkynningu Keflvíkinga.