Viðræðurnar við ÍA hófust eftir tímabilið og við sigldum þessum í land á frekar stuttum tíma. Samningurinn er út tímabilið 2022 og ég hlakka til að komast af stað á fullu í boltann aftur,“ segir Árni Snær Ólafsson markvörður ÍA sem skrifaði nýverið undir samning við Knattspyrnufélag ÍA ásamt varnarmanninum þaulreynda Halli Flosasyni.
Árni Snær varð fyrir erfiðum meiðslum í upphafi tímabilsins 2021 þegar hann sleit hásin og í kjölfarið fór hann í aðgerð sem heppnaðist vel.
„Staðan á mér er bara góð miðað við að það eru bara 6 mánuðir frá því að ég fór í aðgerðina. Fótboltaæfingarnar eru byrjaðar á ný eftir smá frí. Ég mun trappa mig upp smátt og smátt í æfingamagninu. Næstu vikur fram að áramótum verða sérhæfðar æfingar fyrir markverði samhliða endurhæfingu. Eftir áramót verða margir æfingaleikir og þá er planið að vera 100%. Það er engin tímarammi á endurkomunni en við vinnum þetta bara viku frá viku og sjáum til hvernig þetta þróast,“ segir Árni Snær sem er vanur því að koma til baka eftir erfið meiðsli en hann sleit krossband í hné í lok ársins 2016 en náði góðum bata á stuttum tíma miðað við krossbandaslit.
„Þetta er bara bras og leiðindi að lenda í svona meiðslum. Hásinin er öðruvísi en hnéð en þetta er sama ferlið í endurhæfingunni, mikil vinna og nóg af þolinmæði. Eftir aðgerð á hásin var í göngustígvéli í 10 vikur og þurfti að nota hækjur megnið af þeim tíma. Í krossbandameiðslum er maður rúma viku á hækjum og síðan fer maður að reyna að ganga og virkja hnéð. Það sem er erfiðast er að fylgjast með liðinu úr stúkunni og frá hliðarlínunni. Ég reyndi að taka þátt í stemningunni á leikdögum og gera sem best úr stöðunni. Ég ræddi af og til við Árna Marinó Einarsson og gaf honum góð ráð en ég var ekki virkur á æfingum eða slíkt – Skarphéðinn Magnússon sá alveg um markverðina. Ég hélt mér aðeins til hlés og studdi bara liðið eins og ég gat.“
Árni Snær ætlar sér að keppa um sæti í byrjunarliðinu en hinn efnilegi Árni Marinó stóð sig vel í sumar eftir að hann fékk tækifærið í byrjunarliðinu.
„Ég fer alla leið í þessu og vil að sjálfsögðu spila alla leiki. Það er skemmtilegast við fótboltann að spila og það er markmiðið að koma mér í þá stöðu að spila alla leiki.“
Knattspyrnusamband Íslands hefur sett það á dagskrá að efstu deild karla verði tvískipt að lokinni 2. umferð og þá verður liðunum 12 skipt upp í efri og neðri hluta. Árni Snær vonast til þess að liðið nýti meðbyrinn frá lokakafla Íslandsmótsins og Mjólkurbikarkeppninnar fyrir framhaldið.
„Lokakafli tímabilsins var jákvæður eftir erfiða byrjun. Við þurfum bara að byggja ofaná það en það er langt undirbúningstímabil framundan og leikmannahópurinn er ekki fullmótaður. Ég hef þá trú að við verðum með leikmannahóp og lið sem getur laumað sér í baráttuna um sæti efri hluta deildarinnar,“ segir Árni Snær Ólafsson við skagafrettir.is.