Danska stórliðið FCK beinir kastljósinu enn og aftur að fótboltaverksmiðjunni á Akranesi

Skagamaðurinn Daníel Ingi Jóhannesson mun æfa með danska stórliðinu FCK í Kaupmannahöfn þar sem hann verður til reynslu.

Daníel Ingi hittir þar fyrir eldri bróður sinn, Ísak Bergmann Jóhannesson, og Hákon Arnar Haraldsson er einnig samningsbundinn FCK.

Daníel Ingi er einn af fjölmörgum efnilegum leikmönnum úr röðum ÍA en hann er 14 ára gamall. Þetta kemur fram í frétt frá Knattspyrnufélagi ÍA.

„Ungir og efnilega drengir frá ÍA eru að vekja mikla athygli erlendra félaga sem er gleðiefni fyrir félagið okkar.Við óskum Daníel Inga góðs gengis. ÁFRAM ÍA💛🖤“

Ísak Bergmann, sem er fæddur árið 2003, var keyptur af FCK fyrr á þessu ári frá Norrköping í Svíþjóð. Hákon Arnar er einnig fæddur árið 2003 en hann var keyptur frá ÍA af FCK árið 2019.