Covid-19 smittölurnar í hæstu hæðum á landsvísu – smitum fjölgar á Vesturlandi

Alls greindust 204 einstaklingar með Covid-19 smit hér á landi í gær. Það er næst mesti fjöldi smita sem greinist á einum degi frá upphafi faraldursins. Tæp 52 prósent þeirra sem greindust voru í sóttkví og 89 voru óbólusettir fyrir Covid-19. Vel á sjötta þúsund sýni voru tekin á landinu í gær.

Alls eru 24 einstaklingar á sjúkrahúsi vegna Covid-19 veikinda og þar af þrír á gjörgæslu í öndunarvél.

Á Vesturlandi hafa ekki verið birtar smittölur hjá Lögreglunni á Vesturlandi en samkvæmt vefnum covid.is er töluverð fjölgun smita á Vesturlandi. Alls eru 76 í einangrun í landshlutanum vegna Covid-19 smits – en í fyrradag voru 45 í einangrun í landshlutanum og bættust rúmlega 30 einstaklingar í hóp þeirra sem eru í einangrun með Covid-19 smit.

Í sóttkví eru tæplega 200 manns á Vesturlandi og bætast við um 70 einstaklingar í hóp þeirra á Vesturlandi.