Söfnun hjá Polli tókst vel og 350 þúsund kr. renna til Bjarka Fannars og fjölskyldu

Alexander Dagur Helgason er líklega einn yngsti atvinnurekandi landsins. Hinn 18 ára gamli Skagamaður stofnaði í ágúst bílaþvottafyrirtækið Pollur sem er til húsa á Þjóðbraut 13A – og nánast inni á kaffistofu lögreglustöðvarinnar á Akranesi.

Alexander Dagur var með söfnun um s.l. helgi þar sem að allur ágóði af bílaþrifum rann í söfnun fyrir Bjarka Fannar Hjaltasonar og fjölskyldu hans. Eins og áður hefur komið fram á skagafrettir.is er Bjarki Fannar á leið í flókna hjartaðgerð í Boston í Bandaríkjunum en Bjarki Fannar hefur farið nokkrar erfiðar hjartaaðgerðir frá því hann fæddist.

Skagamenn tóku vel í söfnunina hjá Polli eins fram kemur í pistli frá Alexander Degi.

„Við þökkum öllum þeim sem komu og tóku þátt í að safna með okkur fyrir Bjarka Fannari og fjölskyldu hans um helgina. Við þrifum 23 bíla alla helgina og gátum við með ykkar hjálp safnað 327.000kr og Pollur bætti við, svo við gátum afhent þeim 350.000 kr. Við óskum Bjarka og fjölskyldu hans góðrar ferðar og vonum að þeim gangi vel í þessu stóra verkefni sem bíður þeirra í Boston.“

http://localhost:8888/skagafrettir/2021/11/22/erum-med-heilt-baejarfelag-a-bak-vid-okkur-thad-er-mognud-tilfinning/