Vatn flæddi inn í kjallara á Garðavöllum í nótt – þar sem að Golfklúbburinn Leynir er með æfingaaðstöðu í frístundamiðstöð Akraneskaupstaðar.
Þetta er í annað sinn á þessu ári sem slíkt gerist.
Ungir kylfingar úr röðum Leynis komu fyrst á svæðið snemma í morgun þar sem að mikið vatn var til staðar í æfingaaðstöðunni.
Á undanförnum vikum hefur verið unnið að því að endurbæta aðstöðuna eftir vatnstjón sem varð í júlí.
Samkvæmt heimildum standa vonir til þess að nýtt gervigras sem lagt var á kjallagólfið standi af sér þessar raunir og hægt verði að hefja æfingar í næstu viku.
Eins og áður segir er þetta í annað sinn sem slíkt atvik á sér stað í kjallara frístundamiðstöðvarinnar. Mun meira af vatni lak inn í kjallarann í nótt miðað við tjónið sem átti sér stað í júlí.
Ekki liggja fyrir upplýsingar um ástæður þess að vatnið flæddi inn í nótt. En athygling beinist að vatnsbrunni og dælu í tækjarými í kjallara Garðavalla.