Þorskur, mjólk og matreiðsluþættir í uppáhaldi hjá Þórkötlu Íslandsmeistara

Tilfinningin að verða Íslandsmeistari er mjög góð. Þessi titill og bikarmeistaratitilinn í fyrra eru það eftirminnilegasta sem ég hef afrekað fram til þessa. Ég var að jafna mig eftir ökklabrot þegar sigraði á bikarmótinu og það var mjög góð tilfinning,“ segir hin 13 ára gamla Þórkatla Þyrí Sturludóttir við Skagafréttir.

Klifuríþróttin hefur vaxið gríðarlega mikið á Akranesi á undanförnum árum. Kraftmikið starf félagsins undir dyggri stjórn Þórðar Sævarssonar á Smiðjuloftinu hefur vakið athygli á landsvísu og er félagið það fjórða fjölmennasta hjá Íþróttabandalagi Akraness.

Þórkatla Þyrí skipuleggur sig vel og nýtir tímann til þess að koma öllu í verk.

„Ég byrjaði að æfa klifuríþróttina þegar ég var í 2. bekk. Mér hefur alltaf þótt gaman að klifra og sem íþrótt er klifur mjög skemmtileg. Ég vakna alltaf snemma og oft reyni ég að lesa áður en ég fer í skólann. Þegar skólinn er búin er alltaf einhver æfing en ég æfi líka fótbolta. Ég er svo bara með vinum þegar það er tími fyrir það. Ég æfi klifur þrisvar sinnum í viku í tvo tíma í senn og ég er á fótboltaæfingum fjórum sinnum í viku. Það sem er skemmtlegast við klifuríþróttina er að nota þá tækni sem ég er að æfa og klifurleiðirnar eru mjög fjölbreyttar og aldrei eins. Krakkarnir sem eru í æfingahópnum eru einnig mjög skemmtileg.“

Þegar Þórkatla Þyrí er innt eftir framtíðardraumum sínum hvað klifuríþróttina leyfir hún sér að dreyma og hugsa stórt.

„Bara að klifra sem lengst og vonandi að komast á stórmót.“

Þórkatla Þyrí hefur lent í ýmsum óhöppum á undanförnum misserum en ávallt komið sterk til baka. „Það er eiginlega vandræðalegt hversu oft ég lent í því að brotna. Þjálfarinn minn hefur ekki alltaf verið glaður með það en meiðsli eru eitthvað fylgir því að vera í íþróttum.“

Helstu áhugamál Þórkötlu fyrir utan klifur eru fótbolti og henni finnst líka gaman að baka. Hún er í 8. bekk í Grundaskóla en þar eru allir í hennar árgangi í sama bekk, ÖKA, og er nemendum skipt upp í hópa.

„Ég er vanaföst og kannski hjátrúarfull þegar kemur að keppni. Ég á mínar uppáhalds buxur sem ég reyni alltaf að keppa í. Uppáhaldsmaturinn er þorskur og mjólkin er uppáhaldsdrykkurinn. Ég hlusta á allskonar tónlist og ekkert lag er sérstaklega í uppáhaldi. Ég er mest að horfa á matreiðslu – og bökunarþætti í sjónvarpinu, “ segir Þórkatl Þyrí Sturludóttir.

Ættartréð:

Foreldrar: Sturla Már Guðmundsson (1979), Thelma Hrund Sigurbjörnsdóttir (1979).
Systkini: Jófríður Jara Sturludóttir (2011), Aðalsteinn Bói Sturluson (2012).