Orkudrykkir, stress, kvíði og streitustjórnun ofarlega í huga nemenda FVA

Nemendur í Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi tóku nýverið þátt í könnun þar sem að um 100 nemendur svöruðu ýmsum spurningum um skólastarfið. Niðurstöður könnunarinnar gefa til kynna að nemendur óska eftir forvarnarfræðslu og eru stress, kvíði og streitustjórnun ofarlega á lista yfir umfjöllunarefni. Þetta kemur fram á vef FVA

Aukið aðgengi að orkudrykkjum var einnig ofarlega á óskalista nemenda – sem vilja gjarnan að slíkir drykkir séu til sölu í skólanum.  Forsvarsmenn FVA eru á annarri skoðun og telja að slík þjónusta falli ekki undir hlutverk heilsueflandi framhaldsskóla og það sé stefna skólans að stuðla ekki að neyslu orkudrykkja.

Á vef FVA er bent á þá staðreynd að orkudrykkir innihaldi mikið magn af koffín, sem er lengi að fara úr líkamanum og neysla þess getur því bæði valdið því að fólk eigi erfitt með að sofna og að svefngæði verði lakari (minni djúpsvefn). Svefninn er gríðarlega mikilvægur fyrir afköst í námi og íþróttum og æ fleiri afreksíþróttamenn setja svefninn í algjöran forgang í sinni rútínu.

Ekki ætti að nota orkudrykki til að slökkva þorsta eftir íþróttaæfingar eða á meðan á þeim stendur. Það getur aukið vökvatap líkamans enn frekar vegna áhrifa koffíns á þvagmyndun. Einnig getur neysla á orkudrykkjum samhliða hreyfingu valdið hjartsláttartruflunum. Mikilvægt er að foreldrar og forráðamenn fylgist með því að ungmenni séu ekki að neyta orkudrykkja í óhófi.