Starfsbrautarnemendur í FVA upplifa nýjar víddir í fjölbreyttum lýðheilsuáfanga

Í haust hafa starfsbrautarnemendur í áfanganum Lýðheilsa fengið að prófa hinar ýmsu íþróttagreinar í samstarfi við nokkur aðildarfélög ÍA.

Starfsbrautarnemendur í Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi hafa fengið tækifæri til þess að prófa ýmsar íþróttagreinar á haustönn. Áfanginn heitir Lýðheilsa og er verkefnið unnið í samstarfi við nokkur aðildarfélög ÍA. Þetta kemur fram í frétt á vef FVA.

Hópurinn hefur einnig fengið tækifæri til þess að upplifa þá fjölbreyttu möguleika sem eru á Akranesi hvað varðar náttúruupplifun. Í síðustu viku fór hópurinn saman í gönguferð um Garðalund í blíðskaparveðri. Þar gerðu þau æfingar á hreyfistöðvunum – og drukku heitt súkkulaði áður en lagt var af stað í skólann á ný.

Nemendurnir fóru einnig í heimsókn á Smiðjuloftið þar sem að Þórður Sævarsson þjálfari hjá Klifurfélagi ÍA tók á móti hópnum. Þar fengu allir að prófa sig áfram í línuklifri.

Í frétt FVA kemur fram að stofnunin sé afar þakklát fyrir gott samstarf við íþróttahreyfinguna á Akranesi, með þeirra aðkomu kemur ný vídd í lýðheilsukennslu fyrir okkar frábæra hóp.