Drífa tvöfaldur heimsmeistari á HM eldri leikmanna í badminton 2021

Skagakonan Drífa Harðardóttir fagnaði í dag tvennum gullverðlaunum og heimsmeistaratitlum í badminton,

Drífa, sem keppir undir merkjum ÍA, lék til úrslita í tvíliðaleik kvenna og í tvenndarleik á HM eldri leikmanna (öldunga) sem fram fer á Spáni um þessar mundir. Drífa er búsett í Danmörku en hefur eins og áður segir keppt lengi undir merkjum ÍA þar sem hóf ferilinn. Drífa hefur á undanförnum tveimur árum verið kjörin badmintonmaður Akraness.

Drífa keppir í flokki 40-44 ára.

Í tvíliðaleiknum keppti hún með Elsu Nielsen úr TBR. Þar voru mótherjarnir , An Dongsoon og Eunsil Kim frá Suður-Kóreu. Drífa og Elsa höfðu þar betur og fögnuðu HM-titlinum.

Í tvenndarleiknum í sama aldursflokki fagnaði Drífa HM-gulli með Dananum Jesper Thomsen. Í úrslitaleiknum mættu þau Alex Marritt og Rebeccu Pantaney en þeim var raðað númer í styrkleikaflokk mótsins. Drífa og Jesper gerðu sér lítið fyrir og sigruðu í úrslitaleiknum og tóku HM-gullið.