Grundaskóli fær góða einkunn hjá foreldrum

Foreldrar barna sem stunda nám sitt í Grundaskóla tóku virkan þátt í könnun sem fram fór nýverið um ýmis málefni sem tengjast skólastarfinu. Þetta kemur fram á vef Grundaskóla.

„Niðurstöður foreldrakönnunar, sem framkvæmd var rafrænt nú í nóvember, gefur miklar og góðar upplýsingar um afstöðu foreldra og forráðamanna til skólastarfsins. Alls voru þrettán spurningar lagðar fram og var svörun góð eða allt upp í tæp sjö hundruð þátttakendur þegar mest var.

Skólastjórn þakkar fyrir mjög góða svörun og þátttöku í könnuninni. Jákvætt er hversu ánægðir foreldrar og forráðamenn nemenda eru með Grundaskóla og þjónustu hans. Mikil ánægja er t.d. með þjónustu skrifstofu skólans, upplýsingagjöf og mötuneyti. Einnig hefur notkun foreldra á Weduc samskiptakerfi skólans aukist mikið og umsagnir benda skýrt til þess að við séum á réttri leið með það þróunarverkefni.

Foreldrar koma með margar góðar ábendingar um það sem er gott og annað sem betur má fara. Fjölmörg skilaboð erum um ánægju foreldra og forráðamanna með starfsfólk skólans og starfsemi. Skólinn fær mikið hrós fyrir að vinna úr erfiðum aðstæðum, fyrir markvissar varnir gegn Covid og frábæra þjónustu almennt. Það er okkur mikils virði að fá svo góða umsögn og hvatningu.

Einnig koma mikilvægar ábendingar um hluti sem má bæta eða breyta. Dæmi um slík skilaboð eru ákall um að auka grænmetisframboð í mötuneyti, auka forvarnir gegn síma og tölvufíkn, að reyna að auka og bæta húsakost eins hratt og mögulegt er. Einnig er bent á að leiktæki vantar á skólalóð, aðstaða í íþróttamannvirkjum á Jaðarsbökkum sé sprungin, mikilvægt að efla félagsfærni nemenda og vinna skipulega með samskiptafærni.

Skólastjórn mun vinna frekar úr þessari könnun í samstarfi við skólasvið, starfsfólk og fulltrúa foreldra í skólaráði og stjórn foreldrafélagsins. Í sameiningu höldum við saman að gera góðan skóla betri.“