Kristrúnu Báru dreymir um að keppa á EM og HM – „Lít upp til Annie Mist og Söndru“

„Það eru nokkrar ástæður fyrir því að ég æfi karate. Það er frábær félagsskapur í karate, alltaf gaman á æfingum og ávallt góður mórall í hópnum. Einnig er karate mjög góð líkamsrækt og frábær íþrótt fyrir þá sem vilja fá aukinn styrk og liðleika,“ segir Kristrún Bára Guðjónsdóttir við Skagafréttir.

Á dögunum fagnaði hún Norðurlandameistaratitli í hópkata og hin 18 ára gamla karatekona úr ÍA lætur sig dreyma um að keppa Evrópu – og heimsmeistaramótum í framtíðinni.

Kristrún Bára segir að Norðulandamótið hafi alveg frábært og stærsta mótið sem hún hefur keppt á.

„Ég lærði mjög margt nýtt á því að keppa á því og það var líka mjög gaman að fá loksins að keppa með fullan sal af áhorfendum. Í þetta skiptið keppti ég bara í hópkata en ég keppi vanalega líka  í einstaklingskata. Ég var með tveim frábærum stelpum í liði þeim; Móey Maríu Sigþórsdóttir Mclure og Freyja Stígsdóttir. Við erum allar í sitthvoru félaginu og við erum búnar að vera æfa saman sem lið síðan í lok sumars.“

Framhaldsskólaneminn í FVA hefur í mörg horn að líta og stundaskráin er þéttskipuð.  

„Á venjulegum degi fer ég í skólann frá 8:30 – 16 og fer síðan annaðhvort beint að þjálfa til 18 eða fer heim og læri aðeins. Síðan fer ég á æfingu hér á Akranesi eða í Kópavogi hjá Breiðablik. Ég æfi 5-6 sinnum í viku og í 1 og hálfan til 2 tíma í senn. Æfingarnar byrja oftast um 18 og eru til 19:30 – 20. Síðan fer ég heim og tek því rólega, fæ mér kvöldmat og fer að læra eða hitta vini.“

Hvað er skemmtilegast við íþróttina?

Æfingabúðir erlendis og keppnisferðir eru ekkert smá skemmtilegar. Ég var einmitt í æfingabúðum Amsterdam með meistaraflokk Breiðabliks í byrjun nóvember og var það alveg frábær ferð.

Framtíðardraumarnir í íþróttinni?

Mig langar að keppa á EM og það væri algjör draumur að fá inntökuskilyrði á HM.

Hvað er það eftirminnilegasta sem hefur gerst hjá þér á æfingu eða keppni?

Eftirminnilegasta atvikið er líklega þegar ég fékk svarta beltið og þegar ég, Móey María Sigþórsdóttir og Freyja Stígsdóttir unnum gull í fullorðinsflokki í hópkata á NM í síðustu viku.

Áttu þér einhverjar fyrirmyndir í karate eða úr öðrum íþróttum?

Já, ég á mér eina fyrirmynd í karate, það er hún Sandra Sanchez sem er mögnuð karatekona og hefur unnið nánast öll stórmót á síðustu árum. Einnig lít ég mikið upp til Anníe Mist og þann mikla metnað  sem hún leggur í íþróttina sína.

Kristrún Bára er ánægð með félagið sitt, þjálfarana en aðstaða til æfinga aðeins til staðar á Jaðarsbökkum vegna myglu í kjallara íþróttahússins við Vesturgötu.

Karatefélagið á Akranesi er frábært, skemmtilegir nemendur, þjálfarar og flott stjórn. Það eru um 55 skemmtilegir nemendur að æfa karate, en það er alltaf pláss fyrir fleiri og ég hvet alla til þess að koma og prófa karate. Aðstaðan sem við erum í núna er í speglasalnum á Jaðarsbökkum en við erum vanalega niðri í speglasal í kjallaranum í íþróttahúsinu á Vesturgötu en þurftum að færa okkur til vegna myglu sem kom upp í kjallaranum á byggingunni. 

Kristrún Bára á sér ýmis áhugamál fyrir utan karateíþróttina.

Mér finnst mjög gaman að baka og elda. Ég hef líka mjög gaman af allri hreyfingu og mér finnst sérstaklega gaman á skíðum, þrátt fyrir það að kunna ekkert að skíða. Einnig er ég í gettu betur liði skólans, sem er virkilega skemmtilegt og maður lærir alltaf eitthvað nýtt á æfingum.

Staðreyndir:

Nafn: Kristrún Bára Guðjónsdóttir.

Aldur: 18 ára.

Skóli: Fjölbrautarskóli Vesturlands á Akranesi.

Bekkur: Ég er á þriðja ári í FVA.

Besti maturinn: Tortilla eða mexíkósk kjúklinga súpa.

Besti drykkurinn: Vatn eða Sprite af og til.

Besta lagið/tónlistin. Ég á mér ekki eitt uppáhalds lag en er mikið búin að vera hlusta á Bríet, Rihanna og Harry Styles upp á síðkastið. Annars finnst mér best að hlusta á Kanye West til að koma mér í gang fyrir keppni og mót.

Á hvað ertu að horfa þessa dagana?

Ég er að horfa á How I met your mother þessa dagana.

Ættartréð:

Foreldrar Kristrúnar Báru eru Gyða Einarsdóttir (1978) og Guðjón Skúli Jónsson (1978).
Systkini Kristrúnar Báru eru þau Elvar Logi Guðjónsson (2006) og Hugrún Helga Guðjónsdóttir (2016).