Mæðrastyrksnefnd Vesturlands fær veglegan stuðning frá Norðuráli

Framundan fer fram árleg jólaúthlutun Mæðrastyrksnefndar Vesturlands. Mörg fyrirtæki og einstaklingar styðja við bakið á þessu verkefni með ýmsum hætti.

Norðurál, sem er fjölmennasti vinnustaður Vesturlands, leggur verkefninu til eina milljón kr, líkt og undanfarin ár. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.

„Fyrir síðustu jól þáðu 106 fjölskyldur á Akranesi, í Hvalfjarðarsveit og Borgarbyggð stuðning fyrir hátíðarnar. Það er okkur sönn ánægja að geta stutt við þetta mikilvæga starf nefndarinnar,“ segir ennfremur í tilkynningunni.

Hjá Norðuráli á Grundartanga í Hvalfirði starfa um 600 manns við að vinna hreint ál úr áloxíði með raforku úr fallvötnum og jarðvarma. Ál og álblöndur fara á erlenda markaði og íslenski áliðnaðurinn er ein stærsta útflutningsgrein landsins.