Egill St. Fjeldsted, sagnfræðingur frá Patreksfirði hefur gefið út bók um snjóflóðin í Súðavík og í Reykhólasveit í janúar 1995.
Egill stundaði nám í Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi á sínum tíma og lék með körfuknattleiksliði ÍA á þeim árum.
Egill hefur á undanförnum misserum verið í fremstu röð hvað varðar rannsóknarvinnu og ritstörf. Bækur hans hafa vakið mikla athygli og fengið verðskuldaða athygli.
Egill var á sínum tíma í fremstu röð sem íþróttamaður. Hann slasaðist í illa í bílslysi árið 1994, aðeins 25 ára gamall, þar sem hann hálsbrotnaði og lamaðist frá brjósti og niður.
Í nýjustu bókinni, Þrekvirki, fjallar Egill um náttúruhamfarir sem áttu sér stað á Vestfjörðum í janúar 1995.
Árla morguns mánudaginn 16. janúar 1995 féll snjóflóð á þorpið í Súðavík á meðan flestir voru í fastasvefni. Í blindbyl og svartamyrkri hófu heimamenn leit að sínum nánustu, ættingjum og vinum við hrikalegar aðstæður.
Fljótlega varð ljóst að fjölda fólks var saknað og í kjölfarið var óskað eftir fjölmennu utanaðkomandi björgunarliði.
Að kvöldi mánudagsins 18. janúar féll annað mannskætt snjóflóð á sveitabæinn Grund í Reykhólasveit.
Veðuraðstæður voru þá með þeim hætti að engin leið var að koma utanaðkomandi björgunarliði á staðinn.
Kom það því í hlut vina og ættingja úr næsta nágrenni að sjá um björgunaraðgerðir við afar erfiðar aðstæður.
Bókin er að stórum hluta byggð á viðtölum við 40 manns sem annað hvort voru á heimilum sínum þegar flóðin skullu á þeim eða tóku þátt í björgunarstörfum með einhverjum hætti. Fjöldi mynda prýðir bókina.
Bókina má nálgast í helstu bókabúðum og hjá höfundi – sjá fésbókartengil hér fyrir neðan.