Kristín fagnaði Evrópumeistaratitli og setti Evrópumet

Kristín Þórhallsdóttir, íþróttamaður Akraness 2020, setti í dag Evrópumet og fagnaði um leið Evrópumeistaratitli í -84 kílóa flokki í klassískum kraftlyftingum.

Keppnin fer fram í Västerås í Svíþjóð.

Kristín, sem keppir fyrir Kraftlyftingafélag Akraness, ÍA, starfar sem dýralæknir í Stafholtstungum í Borgarfirði.

Samtals lyfti Kristín 560 kílóum samanlagt, sem er nýtt Evrópumet. Kristín var með mikla yfirburði í þessari keppni og en silfurverðlaunahafinn lyfti 502,5 kg.

Keppt er í þremur greinum á EM í klassískum kraftlyftingum.

Í réttstöðulyftunni lyfti Kristín 225 kg, hún lyfti 220 kg. í hnébeygju og í bekkpressu lyfti hún 115 kg.

Í klassískum kraftlyfingu lyfta keppendur „á kjötinu“ eins og sagt er. Í klassískum kraftlyftingum eru keppendur ekki að nota vafninga, beygju- og réttstöðulyftu brækur og bekkpressusloppur sem eru úr lítt eftirgefanlegum efnum og gefa meiri styrk því það styður betur við.

Í klassískum kraftlyftingum er þessi búnaður ekki til staðar. Lyftingabelti, hnéhlífar og úlnliðsvafningar er leyfð til að veita stuðning og forðast meiðsli.