Blanda af sérbýlum og fjölbýlishúsum í vinningstillögu á Sementsreitnum

Tillaga frá Fastefli ehf. fékk hæstu einkunn varðandi tilboð í verkið „Byggingaréttur á Sementsreit á Akranesi“ – uppbyggingarreitir C og D.“ ARKÍS arkitektastofa hannaði vinningstillöguna.

Umslög með tilboðum voru opnuð þann 10. desember s.l. Vinningstillagan var nr. 888722 frá Fastefli ehf. en tilboð þeirra nemur rúmlega 800 milljónum kr.

Alls bárust fjögur tilboð í verkið:

160380: Bryggja 2 ehf. 300 milljónir kr.
172306: Ferrum Fasteignir ehf. 485 milljónir kr.
300300: Fastefli ehf. 802 milljónir kr.
888722: Húsvirki hf. 511 milljónir kr.

Um er að ræða byggingarétt á fjöleignarhúsum á 3 hæðum auk bílakjallara á 4 lóðum á uppbyggingar-reit D og á 2 lóðum á uppbyggingarreit C.

Öllum lóðunum er úthlutað til sama aðila. Alls er gert ráð fyrir 108 íbúðum í þessum áfanga en til stendur að byggja alls 400 íbúðir á Sementsreitnum ásamt þjónustuhúsnæði.

Í umsögn matsnefndar um vinningstillöguna kemur eftirfarandi fram:

Tillagan er fallega unnin, spennandi og gefur góð fyrirheit um áframhaldandi byggð á Sementsreit. Framsetningin er góð. Vel er unnið með staðaranda og leitast við að tengja útlit við byggð í bænum. Uppbrot og efnisnotkun er skemmtileg með tilvísanir í nærumhverfi og þekktar byggingar. Kennileiti mættu vera meira afgerandi. Lóðin er áhugaverð og lífleg. Útgangur úr bílakjallara í miðjan garð virkjar lóðina og örvar samfélagsleg tengsl. Jákvætt er að bílakjallari sé ekki undir allri líð og „jarðsamband“ náist í miðjum garði þar sem að hægt er að koma fyrir stórum trjám. Blágrænar ofanvatnslausnir á lóð og Svansvottun er jákvætt. Hugmynd að blöndun á sérbýli og fjölbýli með mismunandi húsgerðum gengur vel upp og gæði íbúða er góð.

Hér má sjá yfirlitsmynd af svæðinu sem boðið var út á Sementsreitnum.
Hér er loftmynd af svæðinu úr vinningstillögunni – horft til austurs í átt að Langasandi.
Hér er loftmynd útisvæði og garði í vetrarbúning.
Hér má sjá loftmynd af vinningstillögunni.
http://localhost:8888/skagafrettir/2021/10/08/sementsreiturinn-er-eitt-eftirsottasta-byggingarsvaedi-landsins/